Vill senda unga innflytjendur úr landi

05.09.2017 - 22:26
epa06186337 Immigrants and rights activists protest the decision by US President Donald Trump to end the Deferred Action for Childhood Arrivals (DACA) program in Los Angeles, California, USA, 05 September 2017. The program allowed immigrant children
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað í dag að afnema tilskipun um sakaruppgjöf um átta hundruð þúsund barna sem komu ólöglega til landsins með foreldrum sínum. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af Barack Obama, fyrrverandi forseta landsins.

Trump var tíðrætt um það í kosningabaráttunni í fyrra að afnema þessa tilskipun sem Barack Obama, fyrirrennari hans í Hvíta húsinu gaf út fyrir fimm árum og veitti ungu fólki nokkurs konar sakaruppgjöf gagnvart yfirvöldum innflytjendamála, gegn skilyrðum. Í dag stóð Trump við þetta loforð til stuðningsmanna sinna, en lét dómsmálaráðherra sinn, Jeff Sessions tilkynna um ákvörðunina. 

Sex mánuðir eiga að líða þar til ákvörðun Trumps tekur gildi, og Bandaríkjaþing hefur ráðrúm til að skerast í leikinn, náist samstaða þar, sem reyndar er talið ólíklegt.

En ákvörðunin hefur verið gagnrýnd, og það var blásið til mótmæla víða. Barack Obama blandaði sér í umræðuna - en það er afar óvenjulegt að fyrrum forsetar gagnrýni eftirmenn sína. Obama birti langan póst á Facebook síðdegis og sagði að ákvörðun Trumps væri röng - hún ynni gegn hagsmunum þjóðarinnar og hún væri grimmdarleg. 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV