Vill fjölga siglingum yfir Breiðafjörð

31.07.2017 - 15:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samgönguráðherra skoðar nú að fjölga ferðum yfir Breiðafjörð milli Brjánslækjar og Stykkishólms en ferjan Baldur siglir þar á milli daglega. Jón segir vegakerfið á sunnanverðum Vestfjörðum vera óboðlegt og að tryggja verði ferjusiglingarnar, sem séu almenningssamgöngur þessa svæðis.

 

Óboðlegt vegakerfi

„Við verðum að svara bæði þörfum atvinnulífs og íbúa á þessum svæðum til að samgöngur geti verið greiðar,“ sagði Jón í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hann segir ferjusiglingar vera almenningssamgöngur og mikilvægar á þeim stöðum sem þær eru. „Eins og vegakerfið er á sunnanverðum Vestfjörðum, sem er algjörlega óboðlegt yfir vetrartímann, og reyndar allt árið. Hluti vegarins er í þannig ástandi.“

Uppgangur í atvinnulífinu

Vestfjarðarvegur 60 um Gufudalssveit er gamall, illa farinn vegur sem hefur setið eftir í vegakerfinu en veglína endurbætts vegar, um Teigsskóg, hefur verið mjög umdeildur. „Og þarna er atvinnulíf að byggjast upp með merkilegum og áhugaverðum hætti,“ segir Jón. Fjöldi flutningabíla fer til dæmis um vegi sunnanverðra Vestfjarða árið um kring með tilkomu fiskeldis á sunnanverðum Vestfjörðum. Jón segir að bregðast verði við því þegar fyrirtæki koma ekki afurðum til sín eða frá með greiðum hætti.

Vill þriðju ferjuna

Jón sagði í Morgunútvarpinu í morgun að gera þurfi ráðstafanir til að vera með þriðju ferjuna í rekstri við Ísland, auk Herjólfs og Baldurs, til að koma inn á álagstímum og þegar hin skipin fara í reglubundið viðhald eða þurfa viðgerð. „Það er jú á okkar ábyrgð að halda uppi samgöngum og siglingarnar eru samgöngur þessara svæða.“ Hann telur það ekki þurfa að vera kostnaðarsamt að halda gamla Herjólfi í landi þegar nýr kemur á næsta ári.

Mikil óánægja var með fjarveru Baldurs í maí þegar ferjan leysti Herjólf af sem var í slipp.