Vill ekki viðskiptastríð við Bandaríkin

15.03.2017 - 06:58
epa05849020 Chinese Premier Li Keqiang gestures as he speaks to reporters during a  press conference after the closing of the fifth Session of the 12th National People's Congress (NPC) at the Great Hall of the People in Beijing, China, 15 March 2017.
 Mynd: EPA
Forsætisráðherra Kína varar Bandaríkjastjórn við því að hefja viðskiptastríð. Frá þessu greindi hann á blaðamannafundi í Kína í gærkvöld. Hann kveðst bjartsýnn á að samband ríkjanna verði stöðugt þrátt fyrir núning eftir stjórnarskiptin í Bandaríkjunum.

Til stendur að forsetarnir Donald Trump og Xi Jinping haldi fund til þess að minnka spennuna sem myndast hefur á milli ríkjanna frá því Trump tók við embætti í janúar. Hann talaði reglulega um á framboðsfundum sínum að Bandaríkin væru orðin eftirbátur Kína í alþjóðaviðskiptum og því yrði að breyta.

Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, sagði að viðskiptastríð yrði engum til góðs. Þá sagðist hann vonast til þess að samband ríkjanna stæði af sér allar hindranir og haldi áfram að þróast í jákvæða átt.

Trump reitti Kínverja verulega til reiði skömmu áður en hann tók við embætti forseta. Þá ræddi hann við forseta sjálfstjórnarríkisins Taívans í síma. Trump og Xi ræddust við í síma í febrúar og tókst Bandaríkjaforseta þá að mýkja starfsbróður sinn með stuðningsyfirlýsingu við eitt Kína. Í ljósi þess símtals segist Li sjá bjarta tíma framundan í samskiptum ríkjanna og hægt verði að ráða fram úr öllum ágreiningi með samtali.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV