Viljum fá já eða nei

17.02.2017 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  sjoey.is
Konráð Þorsteinn Alfreðsson varaformaður sjómannasambandsins segir að gerð hafi verið skýr krafa á fundi með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra í gærkvöld um hvort stjórnvöld gengju að kröfum sjómanna eða ekki. Það væri hneyksli ef loðnuvertíðin yrði að engu vegna verkfallsins sjómanna.

Konráð segir að Þorgerður Katrín hafi komið með örlítið breytta útfærslu á tillögu um úttekt á skattameðferð fæðis- og dagpeninga. Það dugi engan veginn. Sjómenn hafi boðið tvær leiðir að því marki að skattar verði ekki dregnir af fæðispeningum þeirra. „Við gætum ekki sætt okkur við neitt annað en að fá já eða nei við þessar ósk um þessa aðstoð í þessu máli, yfirlýsingu um að þetta yrði tekið og gert eða ekki.“

Konráð hefur áhyggjur af stöðunni. „Byggðir landsins eru að blæða út og loðnan að sigla hjá og drepst í kjölfarið og ef við nýtum þetta ekki er þetta þjóðarskandall, algjör.“

Sjómenn hafa haldið fundi sín á milli í morgun, og eftir því sem fréttastofa kemst næst er nú beðið viðbragða stjórnvalda.

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV