Vilja þjóðgarð í stað Hvalárvirkjunar

16.05.2017 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: Google maps
Landvernd vill að í stað Hvalárvirkjunar á Ströndum verði stofnaður þjóðgarður utan um ósnortna náttúru áhrifasvæðis virkjunarinnar. Þá hafnar félagið því að fjármunum almennings sé varið í nýtt tengivirki í Ísafjarðardjúpi sem er forsenda þess að virkjunin geti staðið undir kostnaði við að tengjast flutningskerfi Landsnets.

 

Neikvætt álit Skipulagsstofnunar

Hvalá er í Ófeigsfirði í Árneshreppi á Ströndum og hefur verkefnastjórn Rammaáætlunnar sett virkjunarkostinn í orkunýtingarflokk. Nýlega skilaði Skipulagsstofnun áliti sínu á framkvæmdinni og telur að áhrif hennar á ásýnd, landslag og víðerni verði verulega neikvæð, þrátt fyrir mótvægisaðgerðir. 

Fleiri störf í þjóðgarði en við virkjun

Landvernd tekur undir álit Skipulagsstofnunar og í ályktun aðalfundar er skorað á sveitarstjórn og landeigendur í Árneshreppi að falla frá áformum um Hvalárvirkjun og nýta fágæt víðerni, náttúru og eyðibyggðir frekar undir þjóðgarð. Með þjóðgarði skapist strax nokkur langtímastörf í náttúruvernd og til langs tíma fjölmörg störf í náttúrutengdri ferðamennsku, fleiri langtímastörf en myndu fylgja Hvalárvirkjun. 

Nýr tengipunktur rafmagns forsenda framkvæmdar

VesturVerk hyggst reisa virkjunina og virkja þrjú vatnsöfl með upptök á Ófeigsfjarðarheiði,  Rjúkanda, Hvalá og Evindarfjarðará. Framkvæmdaáætlunin er með fyrirvara um að til verði nýr afhendingarstaður raforkunnar inn á flutningskerfi Landsnets í Ísafjarðardjúpi svo virkjunin geti staðið undir tengigjaldi sínu. Nú er afhendingarstaðurinn í Geiradal rétt norðan við Gilsfjörð og er vegalengdin þangað frá Ófeigsfirði meira en tvöfalt lengri en úr Ófeigsfirði í Ísafjarðardjúp.

Meðgjöf til virkjunaraðila

Samkvæmt kerfisáætlun Landsnets er verið að skoða nýjan afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi og er þá einnig litið til annarra virkjunaráforma þar en Vestfirðingar hafa bundið vonir  við að nýr tengipunktur og virkjun í Hvalá geti reynst lykiláfangi í hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum og þannig tryggt raforkuöryggi Vestfirðinga. Landvernd telur hins vegar að svo verði ekki, heldur verði rafmagnið flutt úr Ísafjarðardjúpi áfram inn á landsnetið um Geiradal. Landvernd hafnar því að fjámunum almennings sé varið til stuðnings við tengivirki Landsnets í Ísafjarðardjúpi. Það sé meðgjöf til virkjunaraðilanna frá hinu opinbera, sem mætti frekar leggja til í uppbyggingu á Strandaþjóðgarði.