Vilja friða Búðasand og stöðva alla efnistöku

14.09.2017 - 14:07
Mynd með færslu
Grafa á Búðasandi.  Mynd: Aðsend mynd
Áhugahópur um verndun Búðasands í Kjósarhreppi hefur áhyggjur af efnistöku þar úr fjörunni. Töluverðar deilur um efnistöku þar áttu sér stað á árum áður en lauk síðasta vor þegar landeigendur lýstu því yfir þeir væru hættir að taka þaðan perlumöl. Nú taka landeigendur jarðveg þar til einkanota í óþökk þeirra sem vilja að staðurinn verði friðaður.

Grafa var á Búðasandi í lok síðasta mánaðar og í sandinum eru för eftir farartæki. Að sögn Þórarins Jónssonar, bónda á Hálsi, bænum við Búðasand, þá var tekið þar efni til að fylla upp í skurð við bæinn. Skurðurinn var grafinn vegna lagningar hituveitu þangað. „Við höfum ekki sótt efni til að selja. Við tökum til eigin nota og í það þarf ekki framkvæmdaleyfi,“ segir Þórarinn. Að hans sögn sækja þeir landeigendur annað slagið efni á svæðið. „Um daginn stóð þarna grafa í nokkra daga og það gæti skýrt að fólk haldi að þarna sé byrjuð aftur efnistaka.“

Samkomulag um að hætta efnistöku í atvinnuskyni

Nokkuð umfangsmikil efnistaka var á svæðinu á árum áður og um hana var deilt í hreppnum. Að sögn Þórarins þá hittust landeigendur á fundi með hreppsnefnd í fyrra vor þar sem gert var samkomulag um að taka ekki efni á svæðinu til að selja, heldur aðeins til eigin nota.

Segir fólk taka málið nærri sér

„Það er mjög slæmt að ekki sé hægt að friða sandinn alfarið. Hreppsnefnd heimilar efnistöku til einkanota. Ég tel að það sé erfitt að fylgjast með því og að hugtakið til einkanota geti verið teygjanlegt,“ segir Ágústa Oddsdóttir, einn meðlima í áhugahópi um verndun Búðasands. Hún ólst upp í næsta nágrenni við Búðasand, fer þangað oft og hefur sterkar taugar svæðisins. „Það er lítið hægt að gera við efnistöku til einkanota þar sem svæðið er ekki allt friðað. Fólk hefur tekið það mjög nærri sér að horfa upp á alla þessa eyðileggingu,“ segir hún.

Búðasandur er fjara við Laxárvog og er vogurinn á náttúruminjaskrá. Ágústa segir mikilvægt að friða allt svæðið sem eigi sér mikla sögu. Þar voru búðir á 13. og 14. öld og skip komu að landi í Maríuhöfn sem er rétt fyrir utan Búðasand. „Talið er að í júlí ár hvert þegar þingi lauk á Þingvöllum hafi verið þarna stærsta þéttbýli landsins. Þá reið fólk þangað og talið er þarna hafi verið slegið upp nokkurs konar markaðstorgi. Þarna er því mikil saga og falleg náttúra sem þarf að vernda og friða.“  

Námur eru í fjörunni eftir efnistöku liðinna ára. Áhugahópurinn um verndun Búðasands mældi efnistökusvæðin síðasta sumar. Ágústa segir að stærsta svæðið sé um 240 metra langt og mis breytt, frá 40 til 90 metra. „Þarna er hefur verið grafið í malarkamb svo að sjórinn flæðir að. Þannig endurnýjast mölin en ég tel að þetta ógni svæðinu,“ segir Ágústa.

Mynd með færslu
Hjólför eftir farartæki eru í sandinum.  Mynd: Aðsend mynd
Dagný Hulda Erlendsdóttir