Vilja ekki loka fyrir laxeldi í Djúpinu

09.08.2017 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Ef byggð var komin í Ísafjarðardjúp áður en lax gekk í árnar - á þá fólkið ekki að fá að njóta vafans? spyr Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og vísar í frétt frá 1937 sem greinir frá nýjum laxagöngum í Ísafjarðardjúpi. Gunnar Bragi, ásamt öðrum þingmönnum kjördæmisins, leggst gegn því að loka Ísafjarðardjúpi fyrir uppbyggingu í laxeldi og vill að byggðasjónarmið fái vægi í stefnumótun í fiskeldi.

Byggðasjónarmið eigi að vera hluti af jöfnunni

Nýlega sendu sveitar- og bæjarstjórar á norðanverðum Vestfjörðum frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýstu yfir áhyggjum sínum af því að ekki væri tekið tillit til byggðasjónarmiða í vinnu nefndar um stefnumótun í fiskeldi. Þar vægi áhættumat Hafrannsóknastofnunar um erfðablöndun laxastofna meira en byggð við Djúpið. Nefnd um stefnumótun í fiskeldi á að ljúka vinnu sinni um miðjan ágúst en Gunnar Bragi, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, setti nefndina á fót í ráðherratíð sinni. Hann segir að lagt hafi verið upp með að nefndin fjallaði vítt um fiskeldið, lærði af reynslu annarra til að skapa umgjörð sem væri þá mest í sátt við samfélagið og umhverfið. Hann segir byggðasjónarmið eiga að vera hluta af jöfnunni og telur að svo verði: „Það er eitthvað sem mér finnst vanta eins og staðan er akkúrat núna en ég tel að það komi - eigi eftir að setja inn í jöfnuna.“ Gunnar Bragi segir að fiskeldið sé klárlega lyftistöng fyrir samfélögin bæði fyrir austan og vestan og sé komið til að vera. Gefa þurfi nefndinni svigrúm til að ljúka vinnu sinni.

Telur niðurstöðu Hafró vera fyrsta skrefið

Gunnar Bragi segist ekki sjá forsendur fyrir því að loka Djúpinu. Í grein á bb.is segir hann áhættumat Hafrannsóknastofnunar um erfðablöndun vera ágætt fyrsta skref til þess að meta áhrif af fiskeldi en að óvissa sé um niðurstöðurnar enda verið að beita aðferðafræðinni í fyrsta sinn. Það verði að gera kröfu um að þekking og tækni sem er til staðar sé nýtt til þess að fyrirbyggja mögulegan skaða og að eðlilegt sé að taka tillit til niðurstaðnanna við ákvörðun um framhald eldisins í Djúpinu. Í dag sé þó ekki hægt að leggja eingöngu rannsóknirnar til grundvallar ákvarðanatöku um framtíð fiskeldis. 

Fleiri þingmenn á móti því að loka Djúpinu

Samflokkskona Gunnars Braga, Elsa Lára Arnardóttir, hefur tekið undir orð sveitar- og bæjarstjóranna um að gæta hagsmuna byggðar og Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki vera tilbúinn til að láta loka Djúpinu fyrir fiskeldi. Hann vill byggja eldið upp í skrefum með hliðsjón af umhverfi og mótvægisaðgerðum. Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu, segir enn allt opið hvað varði laxeldi í Djúpinu. Ekki sé hægt að láta niðurstöðu Hafrannsóknastofnunar eins og vind um eyru þjóta en að ef það er verjandi þá sé mikilvægt að fara af stað með eldi í Djúpinu. Umgjörðin þurfi þó að vera öflugri en hún er í dag. „Við knýjum fast á að efla atvinnulífið og þetta er liður í því,“ segir Guðjón. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segist ætla að móta sína afstöðu til framtíðar fiskeldis í Ísafjarðardjúpi þegar nefndin hefur lokið störfum sínum og skilað niðurstöðu. 

Fólkið eigi að njóta vafans

Gunnar segir svo aðra umræðu vera hvað sé náttúrulegt og ekki náttúrulegt og vísar til fréttar frá árinu 1937 sem hefur verið deilt á samfélagsmiðlum. Þar kemur fram að lax sé farinn að ganga í ár í Ísafjarðardjúpi og að það hafi ekki þekkst áður. Í fréttinni er laxinn rakinn til þess að fjöldi klakseiða hafi verið settur í árnar: „Svo má líka velta fyrir sér hvort að það hafi ekki verið fólkið sem að kom á undan fisknum í árnar - hvort að það eigi þá ekki að vera fólkið sem eigi að fá að njóta vafans.“