Vilja breyta raforkumarkaði - verð gæti hækkað

07.03.2017 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Breyta þarf uppbyggingu raforkumarkaðar til heimila, að mati hagfræðinga hjá Copenhagen economics. Slíkt gæti leitt til hærra verðs. Þá gagnrýna þeir að enginn beri ábyrgð á afhendingu raforku til heimila samkvæmt lögum. Iðnaðarráðherra segir það til skoðunar í ráðuneytinu.

Landsvirkjun lét fyrirtækið Copenhagen economics gera óháða úttekt á raforkumarkaðnum á Íslandi. Hún var kynnt á fundi á Hilton Nordica hótelinu í morgun. Helstu niðurstöðurnar eru þær að á meðan markaðurinn fyrir stórnotendur - sem eru aðallega álver og kísiler - hafi virkað ágætlega sé ekki það sama að segja um heildsölumarkaðinn, sem selur orku til heimila og minni fyrirtækja. Þar skorti á gegnsærri verðmyndun. 

Þá kom einnig fram að með hækkandi verði til stóriðju hafi munurinn á verði þar og í heildsölu minnkað. Helge Sigurd Næss-Schmidt, annar höfundur greiningarinnar segir að þar með er heildsölumarkaðurinn ekki eins spennandi. Því séu lagðar fram tillögur til að gera þennan markað meira spennandi. Hann segir að þetta geti þýtt að verðið til heimila hækki. Það ætti þó ekki að hafa mikil fjárhagsleg áhrif á heimilin þar sem Landsvirkjun sé í ríkiseigu og því njóti skattborgararnir og íslenskt efnahagslíf ávinningsins.

Í greiningunni er einnig bent á að enginn ber ábyrgð á raforkuöryggi til heimila. Landsvirkjun gerði það til ársins tvö þúsund og þrjú, en hún var afnumin við breytingu á raforkulögum þá. Þetta geti orðið vandamál þegar skortur er á umframorku. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra segir þetta til skoðunar í ráðuneytinu. „Þetta er staða sem við viljum ekki sjða til lengri tíma, sérstaklega ef staða n verður þannig að það mun augljóslega vanta orku. Þá verðum við, heimili í landinu og smærri fyrirtæki, að geta verið viss um að fá þá orku sem við þurfum. Þannig að við erum að skoða það.“

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV