Vilja aftur auglýsa stöðu borgarlögmanns

10.08.2017 - 17:15
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur til að staða borgarlögmanns verði aftur auglýst og ferlið að ráðningunni endurskoðað. Ebba Schram var skipaður borgarlögmaður Reykjavíkurborgar á borgarráðsfundi í morgun en hún var annar tveggja umsækjenda sem sóttu um stöðuna. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt ráðningarferlið og auglýsingu stöðunnar og sakar borgaryfirvöld um „stjórnsýslufúsk“. Ráðninganefnd segir að löglega var að ráðningunni staðið.

„Í ljósi óvandaðrar málsmeðferðar vegna fyrirhugaðrar ráðningar borgarlögmanns er lagt til að ferlið verði endurskoðað og staðan þar með auglýst að nýju. Enn fremur er lagt til að betur verði staðið að auglýsingu stöðunnar en gert var í júní,“ segir í tillögu á borgarráðsfundi í morgun en tillögunni var vísað frá. Þá var felld tillaga um að fresta ráðningu borgarlögmanns.

Þá var í bókun frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins gerð alvarleg athugasemd við ráðningaferlið og sagt að staðan hafi verið illa auglýst, sem kynni að vera skýring þess að umsækjendur voru ekki fleiri. Einnig gagnrýnir hann að öll gögn málsins hafi ekki verið borðliggjandi. Fulltrúar Framsóknar og Flugvallarvina greiddu Ebbu atkvæði sitt en töldu þó að betur hefði mátt standa að auglýsingu stöðunnar. 

Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í heild:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlega athugasemd við óvönduð vinnubrögð vegna ráðningar borgarlögmanns. Athygli vekur að einungis tveir einstaklingar sóttu um embættið, sem er eitt hið mikilvægasta og best launaða innan borgarkerfisins. Staðan var aðeins auglýst einu sinni í einu dagblaði og kann það að vera skýringin á því að ekki sóttu fleiri um stöðuna. Mörg fordæmi eru fyrir því hjá Reykjavíkurborg að umsóknarfrestur sé framlengdur eða stöður auglýstar að nýju þegar um fáa umsækjendur er að ræða eða ef málsmeðferð stenst ekki gagnrýni eins og um er að ræða í þessu tilviki. Þrátt fyrir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ítrekað óskað eftir því að fá öll gögn málsins afhent var ekki orðið við því fyrr en í lok þessa fundar þegar málið var tekið á dagskrá. Sum gögn málsins voru að vísu send öðrum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kl. 19.38 í gærkvöldi en þar var hvorki að finna lágmarks grunngögn í ráðningarmálum, þ.e. umsóknir, þótt umsækjendur séu einungis tveir, né staðlaða samantektartöflu í ráðningarmálum þar sem helstu upplýsingar koma fram um umsækjendur, þ.e. nafn, aldur, menntun, fyrri störf og núverandi staða. Er slæmt til þess að vita að borgarstjórnarmeirihluti, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna, skuli með þessum vinnubrögðum halda áfram í þeim leiðangri sínum að draga úr gagnsæi í tengslum við ráðningar í mikilvægustu stöður í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar með því að takmarka upplýsingagjöf til borgarráðsmanna í tengslum við þær.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV