Vilja að rekstrarleyfi verði fellt úr gildi

17.02.2017 - 14:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landssamband veiðifélaga telur einhlítt að umfangsmikil slysaslepping á regnbogasilungi úr sjókví Arctic Sea Farm á Vestfjörðum leiði til þess að eldisfyrirtækið verði svipt rekstrarleyfi. Landssambandið segir í tilkynningu að fyrst hafi frést af regnbogasilungi í sjó á Vestfjörðum um miðjan júní í fyrra. Í gærkvöldi sendi Arctic Sea Farm frá sér tilkynningu þar sem sagði að meginskýringin á slysasleppingu regnbogasilungs lægi líklega í gati á sjókví sem nýverið hafi fundist.

Landssamband veiðifélaga segir að regnbogasilungur hafi veiðst í fjölda vatnsfalla á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðvesturlandi. Sambandið hafi margoft gert eftirlitsstofnunum aðvart. Þá hafi málið verið kært til lögreglu.

„Átta mánuðum seinna er viðurkennt að það sé gat á kví. LV telur að hátterni þetta sé skýrt lögbrot sem eðlilegt sé að lögregla rannsaki til hlítar og vísað verði til ákæruvaldsins. Landssambandið telur þetta brot svo alvarlegt að það hljóti að leiða til sviftingar rekstrarleyfis,“ segir í tilkynningu Landssambandsins.