Vilja að ráðherra bregðist við þróun fiskverðs

02.08.2017 - 12:56
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Landssamband smábátaeigenda hvetur sjávarútvegsráðherra til að bregðast við lækkuðu þorskverði og annarra fisktegunda. Verðmæti þorskaflans hefur dregist saman um 25 prósent miðað við sama tíma í fyrra.

 

Samdráttur á aflaverðmæti

Mikill samdráttur hefur orðið í verðmæti fiskafla við Ísland miðað við apríl í fyrra, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Verðmæti þorskaflans hefur til dæmis dregist saman um 25 prósent. Örn Pálsson er framkvæmdastjóri Landsambands smábátasjómanna: „Uppundir 90 prósent af okkar aflverðmæti í þorski og ýsu, og þorskurinn yfir 60 prósent, og þegar svona verðlækkun á sér stað þá riðlar þetta öllu hjá mönnum.“

Lækkun ekki í takt við styrkingu krónunnar

Stjórn Landssambands smábátaeigenda lýsir yfir áhyggjum af lækkuninni og telur ljóst að engin ein ástæ ða sé fyrir hremmingunum. „Við höfum skoðað útflutningsverðmætið á þorski og það lækkar ekki í takt við styrkingu krónunnar,“ segir Örn. Stjórn sambandsins telur að afleiðingar verkfalls, þröng staða fyrir aukaafurðir og lokun Rússlandsmarkaðar hafi einnig áhrif. Þá telur Örn að þrengt hafi að fyrirtækjum sem hafa að jafnaði keypt fisk af mörkuðum á sumrin.

Vilja viðbrögð frá ráðherra

Örn segir sjómenn á strandveiðum fá allt að helmingi minna fyrir aflann í sumar miðað við í fyrra. Hann segir vonbrigði að málið hafi ekki verið tekið til umræðu á Alþingi áður en þingi lauk í vor, staðan hafi þá þegar verið ljós. Þorskur sé 45 prósent af öllu aflaverðmæti hér við land og því mikilvægt að bregðast við stöðunni: „Við teljum að ráðherra þurfi að koma að þessu máli og setja saman nefnd og henni falið að kortleggja þessa stöðu sem upp er komin og greina þessar ógnir sem stafa að sölu sjávarafurða.“