Vildu fá nafni ísbúðar í Þrastarlundi breytt

10.05.2017 - 10:57
Mynd með færslu
 Mynd: Af Facebook-síðu Þrastarlunda  -  Þrastarlundur
Neytendastofa hefur hafnað beiðni Nautafélagsins um að ísbúð í Þrastarlundi verði bannað að nota nafnið Ísfabrikkan. Nautafélagið er í eigu Jóhannesar Ásbjörnssonar og Sigmars Vilhjálmssonar og rekur hamborgarastaðina Hamborgarafabrikkuna. Neytendastofa taldi útilokað að einhverjir myndu ruglast og fara á Ísfabrikkuna í staðinn fyrir Hamborgarafabrikkuna því hamborgararnir væru seldir í Reykjavík og á Akureyri en ísinn í Þrastarlundi

Í bréfi sem forsvarsmenn Nautafélagsins sendu í nóvember á síðasta ári var óskað eftir flýtimeðferð. Miklir hagsmunir væru í húfi fyrir fyrirtækið.  

Þeir hefðu fyrst tekið eftir rekstri Ísfabrikkunnar í september á síðasta ári. Í lok þess mánaðar hefði verið haft samband við rekstraraðila ísbúðarinnar en enginn svör borist. Í símtali í lok október hefði svo eiganda ísbúðarinnar hafnað öllum kröfum Nautafélagsins.

Í kvörtun Nautafélagsins kemur fram að nafnið „Fabrikkan“ hafi verið mikið notað á síðustu árum. Til að mynda við að markaðssetja vörur eins og sósur og annað slíkt sem væri selt í verslunum Hagkaupa og Krónunnar víða um land, meðal annars á Selfossi.  Eigendur staðarins væru sömuleiðis landsþekktir og Fabrikkan væri einn af vinsælustu veitingastöðum landsins. Það hefði til dæmis verið það veitingahús sem Íslendingar versluðu mest við sumarið 2016.

Neytendastofa óskaði eftir upplýsingum frá rekstraraðila ísbúðarinnar en fékk enginn svör. Engu að síður taldi Neytendastofa að ekki væri ástæða til aðgerða af hálfu þess í málinu.  Ísbúðin seldi eingöngu ís en Nautafélagið hamborgara. Þá væri sá stóri munur að ísbúðin væri staðsett á Selfossi, nánar tiltekið í Þrastarlundi - hamborgarastaðirnir væru á Akureyri og Reykjavík. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem forsvarsmenn Hamborgarafabrikkunnar reyna að fá nafni staðar breytt.  Fyrir þremur árum bannaði Neytendastofa veitingastað á Laugarvatni að nota nafnið Pizzafabrikkan.  Áfrýjunarnefnd neytendamála sneri þeim úrskurði svo við, meðal annars með þeim rökum að staðirnir væru að selja ólíkar vörur.