Víkingasverð í bátsgröf í Eyjafirði

13.06.2017 - 18:44
Víkingasverð fannst í fornleifauppgreftri á Dysnesi við Eyjafjörð í dag. Fundurinn er einstakur en sverðið er illa farið. Uppgröfturinn er vegna fyrirhugaðra framkvæmda en fornleifafræðingar gera ráð fyrir að finna töluvert meira af minjum þar.

Tvær fornar grafir fundust á Dysnesi, skammt norðan við Kumlholt þar sem bátsgröf fannst fyrir um áratug. Þar fannst Haugur, heiðin gröf sem hefur verið opnuð áður á einhverjum tímapunkti. Í haugnum fundust mannabein og hundstennur.

Þá fannst bátskuml, þar sem að minnsta kosti einn maður hefur verið grafinn með báti og sverði. Sá fundur er mjög merkilegur en sjaldgæft er að finna kuml sem ekki hefur verið raskað af mannavöldum. Bátskumlið er hinsvegar mjög illa farið af sjávarrofi. 

Minjarnar nær horfnar í sjó

„Sjórinn hefur tekið stærstan hluta af bátnum og trúlega eitthvað úr honum. Við erum búin að finna laus mannabein í yfirborði. Þannig að við sjáum að þarna hefur legið maður. Það að sverðið sé ennþá í bátinum bendir til þess að líklegast hefur þetta kumlinu ekki verið raskað. Þannig að öllu líkindum á einhverjum tímapunkti hefur verið þarna ósnert bátsgröf, sem nú er að mestu horfin í sjó," segir Hildur Gestsdóttir fornleifa- og beinsfræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands.

Viðurinn úr bátinum er horfinn en eftir rónöglum sem fundust er hægt að staðsetja hann í gröfinni. Hildur segir mjög heppilegt að uppgröfturinn sé á þessum tímapunkti þar sem minjarnar hefðu að öllum líkindum horfið að fullu í sjó. 

„Mjög merkilegur fundur“

Rúnar Leifsson, minjavörður Norðurlands eystra segir að nafnið Dysnes hafi vakið grunsemdir um að þarna kynnu að finnast minjar en í heiðnum sið var talað um dysja menn og dýr. 

„Það vakti líka grunsemdir að þetta gæti verið grafarstæði að Kumlholt er hérna hálfan kílometra sunnar. Þar grófum við upp fyrir 11 árum síðan mögulega bátsgröf, að hluta. En við finnum ekki oft bátskuml og það eru ekki það mörg víkingasverð þekkt á Íslandi. Þannig að þetta er mjög merkilegur fundur," segir Rúnar en hann á von á að fleiri kuml kunni að finnast á Dysnesi.