Vígamenn enn með örfá hverfi í Mosul

16.05.2017 - 12:06
In this Tuesday, Feb. 21, 2017 photo, a masked Iraqi security officer stands guard outside a house during a raid on suspected Islamic State group fighters, in Mosul, Iraq. (AP Photo/John Beck)
Íraskir hermenn í Mósúl.  Mynd: ASSOCIATED PRESS  -  AP
Íraksher og stuðningssveitum hans hefur tekist að ná hátt í níu tíundu hlutum vesturhluta Mosulborgar úr höndum vígasveita hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Talsmaður hins sameiginlega herafla sem berst gegn vígamönnum greindi frá þessu á fundi með fréttamönnum í Bagdad í dag. Vígamenn ráða einungis nokkrum hverfum umhverfis gamla borgarhlutann, þar sem byggðin er þétt og götur þröngar.

Fyrir nokkrum dögum lýsti yfirmaður írakska herráðsins því yfir að bardögum um Mosul lyki á næstu dögum. Íslamska ríkið náði borginni á sitt vald árið 2014. Áin Tígris skiptir borginni í tvennt. Austurhlutinn vannst í janúar síðastliðnum. Baráttan um vesturhlutann hefur staðið síðan. Hún hefur kostað þúsundir almennra borgara lífið.

Um það bil hálf milljón íbúanna í Mosul hefur lagt á flótta vegna hernaðarðgerðanna undanfarna mánuði. Þar af flúðu um tuttugu þúsund vesturhlutann á fimmtudaginn var. Talið er að 250 þúsund almennir borgarar séu enn innikróaðir í vesturhlutanum. Sú staða hefur iðulega komið upp að vígamenn skýla sér bak við fólkið.

Í austurborginni herma fregnir að lífið sé óðum að færast í eðlilegt horf eftir að vígamennirnir voru felldir eða hraktir á brott. Það þótti tíðindum sæta á dögunum þegar fyrsta áfengisverslunin var opnuð þar. Áfengisbann var í borginni meðan hryðjuverkamenn héldu þar um  stjórnartaumana.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV