Viðtal: Fjármögnun ríkisins forsenda umbóta

15.06.2017 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson  -  RÚV
Sveitarfélagið Skútustaðahreppur og 15 rekstraraðilar í Mývatnssveit hafa sent fimm ára umbótaáætlun um fráveitumál í sveitarfélaginu til Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra. Heildarkostnaður fráveituframkvæmda fyrir sveitarfélagið er áætlaður um 500-700 m.kr. og þá má áætla að hann hlaupi á hundruðum milljóna króna fyrir rekstraraðila.

Hávær umræða hefur verið um fráveitumál við Mývatn síðustu misseri og áhrif frárennslis á lífríki vatnsins. Skútustaðahreppur hefur átt í viðræðum við ríkisvaldið um fjárhagslega aðkomu við aðgerðir og vísað þar til sérstöðu Mývatns.

Þrír þéttbýliskjarnar með lokuð kerfi

Í umbótaáætluninni, sem kynnt var á fundi í morgun, eru skilgreindir þrír þéttbýliskjarnar, við Reykjahlíð, Voga og Skútustaði. Lokuð kerfi á hverjum stað eru tengd við hreinsistöðvar. Sveitarfélagið leggur til fráveitukerfið sem rekstraraðilar tengjast svo samkvæmt gjaldskrá. Athygi vekur að tvö stór hótel í Mývatnsveit eru ekki aðilar að þessu samkomulagi; Hótel Laxá og Íslandshótel. Þar verða lokuð skólphreinsikerfi sem fyrirtækin reka sjálf. 

Vilja kanna möguleika á niðurdælingu

Í áætluninni er lögð áhersla á að rannsaka og kanna frekar þann möguleika að losa fráveituvatn, sem almennt rennur frá hefðbundnum rotþróm, í borholur. Þannig megi farga næringarefnaríku frárennslisvatni. Gert er ráð fyrir undirbúningi til næsta vors og gerð verði tilraun með niðurdælingu næsta sumar. Þá á sveitarfélagið í viðræðum við Norðurorku um aðkomu að veitumálum, sem áætlað er að standi til áramóta.

Fjármagn frá ríkinu alger forsenda 

Samkvæmt tilkynningu frá Skútustaðahreppi er aðkoma ríkisins að fjármögnun algjör forsenda þess að ráðist verði í þessar kostnaðarsömu framkvæmdir. Bent er á að umhverfisráðherra hafi, á fundi með sveitarstjórn og fjármálaráðherra í lok maí, sagt að ráðuneytið ætlaði að setja aukið fjármagn í rannsóknir og vöktun Mývatns.

Hér má hlusta á viðtal við Þorstein Gunnarsson, sveitarstjóra Skútustaðahrepps.