Viðhorf ríkisstjórnar krefjist tortryggni

08.04.2016 - 11:24
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að mótmælin á mánudag skýrist af því að fólk hafi séð glitta í fyrirhrunsárin í pólitíkinni og hugnist það ekki. Tortryggni sé til staðar og hún sé lögmæt. „Ef ríkisstjórnin sjálf metur verkefnin meira en eigin völd, þá fórnar hún eigin völdum fyrir verkefnin. Manni sýnist að enn og aftur verði það einmitt öfugt,“ sagði Helgi Hrafn í ræðu sinni á Alþingi í morgun.

Helgi sagði fólk vilja fá siðbót í stjórnmálum, lýðræðisumbætur og  kerfisumbætur til hins betra. 

„Það sem hefur sýnt sig best í þessu máli er að ríkisstjórnin, og helstu verjendur hennar, virðast ekkert hafa lært nema að kannski það að þeir hefðu áttað fela betur og fráfarandi forsætisráðherra virðist hafa lært það eitt að missa ekki kúlið í viðtölum og hefur beðist afsökunar á því einu að hafa gert sjálfan sig að athlægi. Aðrir taka upp varnir fyrir [Sigmund Davíð Gunnlaugsson], aðrir bölsótast út í fyrirspyrjendur, gagnrýnendur og Ríkisútvarpið. Ekki eru þeir beðnir afsökunar. Ekki sjá menn að sér hvernig þeir höguðu sér þegar þessi gagnrýni og þessar spurningar komu fram.“

Helgi segir að nú þegar þinglok nálgast sé einsýnt að starfsumhverfið verði erfiðara en venjulega. „Í því felst engin hótun heldur bara augljósar staðreyndir. Jafnvel ef ekki væri til staðar nein málþófshefð hér, jafnvel ef það væri ekki venjan að tefja mál og búa til þrýsting og semja um mál við þinglok, eins og hefur verið tilfellið hér, þá væri hætta á því að sú hefð myndi myndast nú.“

Skýringin á því sé heldur málefnaleg. „Ríkisstjórnin hefur einfaldlega opinberað viðhorf sem krefst tortryggni af hálfu annarra, sem krefst þess að þingmenn, almenningur og allir hagsmunaaðilar kryfji málin ennþá dýpra heldur en ellegar og spyrji erfiðari spurninga heldur en venjulega og sætti sig síður við svörin. Og tortryggi frekar svörin sem berast þegar spurt er að og lögmæt gagnrýni er borin fram. Þetta verður áfram eitt af þeim vandamálum ríkisstjórnarinnar við að koma í gegn þessum málum sem hún vill koma í gegn á þessum tíma sem eftir er af þessu kjörtímabili, hversu langt svo sem það  verður.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV