„Við þurfum að sinna börnunum okkar“

16.06.2017 - 20:26
Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri leiksýningarinnar Blái hnötturinn, tók á móti verðlaunum á Grímunni í kvöld fyrir barnasýningu ársins.

Hann hóf ræðu sína á að þakka fyrir sig og segja að það hafi verið mikið ævintýri að taka þátt í sýningunni Bláa hnettinum. „Við þurfum að sinna börnunum okkar,“ hélt hann áfram. „Þjóðfélag sem sinnir ekki börnum sínum er ekki gott þjóðfélag, það er ekki göfugt þjóðfélag. Ef við ætlum að vera fallegt þjóðfélag þá sinnum við börnunum fyrst og þeim sem minnst mega sín. Ef við stöndum frammi fyrir röngum lögum og röngum gjörðum þá breytum við því. Við fáum nýja stjórnarskrá [...] svo forsetinn þurfi ekki að skrifa undir lög sem hann sér ekki einu sinni.“

Bergur Þór, er faðir eins fórnarlamba Roberts Downey, sem missti lögmannsréttindi sín eftir dóm fyrir kynferðisofbeldi gegn fjórum stúlkum. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í gær að veita skyldi Roberti lögmannsréttindi á ný. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kynnti síðar um kvöldið heiðursverðlaun Grímunnar, en þau hlaut óperusöngvarinn Garðar Cortes.

„Þrátt fyrir allt illt í heiminum trúi ég á hið góða. Þrátt fyrir allt veit ég að við getum gert betur og þrátt fyrir að margt sé þannig að manni verði stundum orða vant, þá veit ég og vona að við getum gert betur,“ sagði Guðni í ræðu sinni. „Þar skipta listir miklu máli. Ég þakka heiðurslistamanninum sem senn stígur hingað á svið fyrir hans þátt. Ég þakka ykkur öllum fyrir það að vinna saman að því að gera þennan heim ögn betri í dag en hann var í gær.“

Guðni Th. Jóhannesson segir að hann hafi ekki tekið ákvörðun um það að veita Robert Downey uppreist æru.