„Við ofurefli að etja“

16.06.2017 - 13:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Landeigendur Reykjahlíðar í Mývatnssveit, sem kröfðust þess að eignarnám vegna Kröflulínu 4 og 5 yrði fellt úr gildi, hafa ekki ákveðið hvort brugðist verður við dómi Hæstaréttar um að eignarnámið skuli standa.

Landeigendurnir höfðu áfrýjað málinu til Hæstaréttar eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði íslenska ríkið og Landsnet af kröfum þeirra. Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms í gær. 

Skilaboð um að vera ekkert að andæfa

Sigfús Illugason, annar landeigendanna, sagðist í morgun ekki vera búinn að kynna sér dóminn til hlítar. Hann segir að svo virðist sem þarna hafi verið við ofurefli að etja. Ef til vill séu þetta skilaboð um að fólk eigi ekkert að vera að andæfa þegar svo stór mál og miklar framkvæmdir séu í gangi.

2 milljónir í sakarkostnað vonbrigði

Sigfús segir það vonbrigði að vera dæmdur í Hæstarétti til að greiða Landsneti og íslenska ríkinu tvær milljónir króna í málskostnað, þegar Héraðsdómur hafði fellt allan þann kostnað niður í sama máli.