„Við óbreytt ástand verður ekki unað“

12.09.2017 - 14:25
„Við verðum að læra af biturri reynslu og bæta um betur,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti þegar hann ávarpaði Alþingi við setningu þess í dag. Hann lagði út af umræðunni um uppreist æru tveggja kynferðisbrotamanna. Guðni sagði að ekki yrði við óbreytt ástand unað og tók undir viðhorf þeirra sem sagt hafa að breyta verði lögum um uppreist æru.

Guðni lýsti Alþingi sem þungamiðju stjórnmálalífs Íslendinga þegar hann setti þing: „Hingað sækja ráðherrar og þingmenn umboð sitt. Hingað horfir fólk þegar það æskir endurskoðunar á lögum landsins. Því er svo mikilvægt að Alþingi njóti virðingar manna á meðal. Að þingheimur sé traustverður.“ Guðni vísaði strax í upphafi ræðu sinnar til ákalls eftir endurskoðun stjórnarskrárinnar, sérstaklega hvað varðaði völd og ábyrgð forseta Íslands.

Forseti vísaði sérstaklega til þeirrar umræðu sem varð um undirskrift forseta á uppreist æru Roberts Downeys sem dómsmálaráðherra hafði ákveðið. Guðni sagði að það hefði engu skipt að stuðst hefði verið við lög og ríka hefð um framkvæmdina. „Þetta skipti engu því lagahugtakið uppreist æru þykir úrelt og villandi. Löngu er tímabært að það heyri sögunni til,“ sagði Guðni.

Forsetinn sagði að vissulega ættu menn sem hafa afplánað dóm að fetað nýja braut æ ævinni, ólíka þeirri þar sem þeir hefðu valdið öðrum skaða. Hann sagði að einlæg iðrun og yfirbót yrði eflaust til góðs á þeirri braut. Hann sagði að það hefði þó ekkert með æru að gera.

Guðni sagði skynsamlegt gæti verið að skilyrða endurheimt borgaralegra réttinda með einhverjum hætti eins og sumir þingmenn hefði lagt til. Unnið er að breytingum á lögunum. „Við óbreytt ástand verður ekki unað. Eftir óbreyttu verklagi verður ekki unnið,“ sagði Guðni. 

Forsetinn sagði það gefa sér von að Alþingi og ríkisstjórn ynnu að því að breyta löggjöfinni. „Þá verður heiðurinn þeirra sem brotið var á og neituðu að bera harm sinn í hljóði. Fólk í frjálsu lýðræðissamfélagi á að láta í sér heyra þegar því er misboðið. Ekki með háreysti einni saman heldur með rökum í krafti ríkrar réttlætiskenndar og þeirrar sannfæringar að þótt valdhafar megi ekki feykjast til og frá í vindum líðandi stundar þá hlusti þeir, sjái að sér þegar þess er þörf og axli ábyrgð.“

Stjórnarskrárendurskoðun boðuð

Forsetinn vísaði til yfirlýsinga í stjórnarsáttmála um að endurskoða stjórnarskrána. Boðuð stjórnarskrárnefnd hefur ekki enn verið skipuð. Guðni fór yfir áratuga langa umræðu um breytingar á stjórnarskrá og gagnrýni á að stjórnarskráin endurspeglaði ekki þær breytingar sem orðið hefðu á samfélaginu. Hann vitnaði til orða fyrsta forsetans, Sveins Björnssonar, um að stjórnarskráin væri bætt flík sem upphaflega hefði verið hönnuð í öðru landi einni öld fyrr.

Guðni vísaði í orð stjórnmálamanna og stjórnspekinga sem hafa sagt að í stjórnarskránni verði að að draga upp skýrari mynd af ríkjandi stjórnarfari. „Árétta þurfi að ráðherrar fari með æðsta framkvæmdavald, hver á sínu sviði, og nefna berum orðum hvaða stjórnskipuleg völd forseti hafi í raun.“ Þar nefndi hann atbeina forseta við stjórnarmyndanir, þingrof og skipun í ýmis embætti. Hann sagði miklu varða að völd og ábyrgð fari saman. „Stjórnarskrárbundið ábyrgðarleysi forseta, sem felur samt í sér formlega staðfestingu á ákvörðunum annarra, samræmist ekki réttarvitund fólks, og á ekki heima í stjórnsýslu samtímans.“

Guðni rifjaði upp stjórnarskrársögu Íslands, sérstaklega eftir að Ísland fékk fullveldi 1918 og sagði við hæfi að minnast tímamótanna með því að vinna að stjórnarskrárbreytingum, sem vitnuðu um sameiginlega sýn sem flestra á umhverfi og auðlindir, ábyrgð og vald.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV