„Við erum búin að gera allt sem við getum“

19.05.2017 - 15:43
Það hefur engin ákvörðun verið tekin um sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla. Nemendur og kennarar við Ármúla eru ósáttir. Ef það komi til sameiningar verði það gegn vilja meirihluta nemenda og kennara.

Nemendur og kennarar við Fjölbrautaskólann við Ármúla afhentu menntamálaráðherra undirskriftalista í menntamálaráðuneytinu í dag þar sem sameiningu Fjölbrautaskólans og Tækniskólans er mótmælt. Kristján Þór fór síðan ásamt skólameisturum skólanna á fund Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis þar sem þessi áform voru rædd. Hann segir nauðsynlegt að bregðast við fækkun nemenda, en þeim gæti fækkað um nærri sjö hundruð frá þessu ári til þess næsta.

Það hefur verið töluverð óánægja með þessi áform innan Fjölbrautaskólans við Ármúla. Súsanna Margrét Gestsdóttir, kennari við skólann segir hana ekki síður hjá kennurum en nemendum. „Ráðherra er bara með tvennt sem hann segir, annað er það að ekkert hafi verið ákveðið sem að margir draga í efa en ekkert vitum við svo um það. Hitt er það að það sé nauðsynlegt að bregðast við tímabundinni fækkun nemenda en hún mun vara í tvö til þrjú ár og við höldum að það séu margar leiðir til að bregðast við henni, hugsanlega sameiningar skóla en að smella stórum framhaldsskóla í góðum rekstri eins og FÁ er undir regnhlíf Tækniskólans það getur ekki verið góð strategía,“ segir Súsanna Margrét Gestsdóttir, kennari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. 

Aldís Elva Sveinsdóttir, formaður nemendafélags Fjölbrautaskólans, tekur undir það. „Ef að þetta mun gerast þá erum við allavega búin að sýna Íslandi að þetta var gert á móti nemendum og þetta var alls ekki það sem við vildum, það bara eina sem við getum gert. Við erum búin að gera allt sem við getum og þetta er bara í höndum þeirra núna.“ 

Fréttin hefur verið uppfærð. Rangt var farið með nafn formanns nemendafélagsins.