Verkföll yfirvofandi á Barselónaflugvelli

03.08.2017 - 16:42
Öryggisverðir á Le Prat flugvelli í Barselóna á Spáni hafa boðað fjögurra klukkustunda vinnustöðvun á morgun og á sunnudag og mánudag. Verkfallið kemur á versta tíma þar sem miklar annir eru á vellinum vegna fólks sem er á leiðinni í og úr sumarleyfum.

Öryggisverðirnir hyggjast standa fyrir frekari aðgerðum síðar í mánuðinum. Að viku liðinni leggja þeir einnig niður vinnu í þrjá daga og mánudaginn 14. ágúst ætla þeir í verkfall í heilan sólarhring.

Þeir grípa til þessa ráðs til að mótmæla erfiðum vinnuskilyrðum. Þeir segjast vera allt of fáir, þurfi að vinna á fjórtán til sextán klukkustunda vöktum og komist varla á salerni vegna anna. Á fjórða hundrað öryggisverðir starfa á flugvellinum. Margir eru frá vinnu vegna veikinda, svo sem þunglyndis og annarra andlegra sjúkdóma, sem hafa skapast af of miklu álagi.

Rekstrarfélag El Prat flugvallar segist hafa reynt að ræða við öryggisverðina, en það hafi engum árangri skilað. Ýmist hafi samninganefnd þeirra ekki mætt til funda eða ekki sýnt því neinn áhuga að finna lausn.

Farþegum sem fara um El Prat fjölgaði um sextíu af hundraði frá 2009 til 2016. Þar eru iðulega langar biðraðir við vegabréfaskoðun og  öryggishlið. Útlit er fyrir að þær lengist enn frekar við aðgerðir öryggisvarðanna.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV