Verjandi Thomasar krefst farsímagagna

07.06.2017 - 15:26
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Verjandi Thomasar Möller Olsen, sem ákærður hefur verið fyrir að myrða Birnu Brjánsdóttur, krefst gagna frá farsímamöstrum á Suðurstrandavegi frá klukkan sex að morgni laugardagsins sem Birna hvarf til sex að morgni sunnudags. Fyrirtaka í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Dómari beindi því til verjanda að leggja fram fyrir næsta þinghald skriflega kröfu um beiðnina og rökstuðning. Ákæruvaldið mótmælti kröfunni. 

Dómari telur að þar sem gögnin séu varðveitt hjá farsímafyrirtæki þurfi að hafa sérstakt þinghald fyrir þessa kröfu. Dómari sagði því að hann myndi boða fjarskiptafyrirtæki til þinghalds þar sem krafan verði tekin fyrir. Þinghaldi var frestað til 15. júní, þar sem krafan verður tekin fyrir.

Olsen hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í lok janúar en ákæra á hendur honum var birt í marslok. Auk þess að vera ákærður fyrir morðið á Birnu er hann ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.

Thomas var ekki viðstaddur þinghaldið.

Allar fréttir af sakamálinu má finna á ruv.is/ibrennidepli/birna-brjansdottir