Verjandi óskar eftir símagögnum í máli Birnu

Verjandi Thomasar Möller Olsen, sem ákærður hefur verið fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur, hefur óskað eftir viðbótar símagögnum vegna málsins og að kvaddir verði til tveir matsmenn; bæklunarlæknir og réttarmeinafræðingur.

Verjandinn mun leggja tvær spurningar fyrir bæklunarlækninn, og fimm spurningar fyrir réttarmeinalækninn.

Olsen mætti ekki í héraðsdóm Reykjaness í morgun, þegar mál hans var tekið fyrir. Gefinn var frestur fram í næstu viku til að kveða matsmenn. Þá hefur verjandi Olsens fengið heimild til að fá símagögn, sem hann hyggst leggja fyrir dóminn. 

Olsen hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn í aðgerð sérsveitar ríkislögreglustjóra um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq um miðjan janúar. Hann er grunaður um að hafa ekið með Birnu að Hafnarfjarðarhöfn og veist að henni með ofbeldi í Kia Rio bifreið sem hann var með á leigu. Lögreglan telur að Olsen hafi ekið frá Hafnarfjarðarhöfn í Ölfus og varpað Birnu í sjó eða vatn nærri Selvogsvita, með þeim afleiðingum að hún drukknaði.
 

Mynd með færslu
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV