Verðmerkingar í bakaríum ófullnægjandi

18.07.2017 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Verðmerkingar í bakaríum á höfuðborgarsvæðinu eru langt frá því að vera viðunandi og þurfa fyrirtækin að fara vel yfir verklag hjá sér til þess að forðast sektir. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Neytendastofu.

Stofnunin gerði athugun á verðmerkingum í 39 bakaríum á höfuðborgarsvæðinu í júní. Kannað var hvort verðmerkingar væru í lagi í borði og hillum, gos- og mjólkurkælum. Athugunin leiddi í ljós að merkingum var mjög oft ábótavant. Gerðar voru athugasemdir við 22 bakarí, en algengt var að vörur væru óverðmerktar. 

„Augljóst er að verðmerkingar í bakaríum eru langt frá því að vera viðunandi og þurfa fyrirtækin að fara vel yfir verðmerkingar og verklag í bakaríum sínum og bregðast fljótt við tilmælum Neytendastofu til að forðast sektir,“ segir í tilkynningunni. 

Neytendastofa fór síðast í sambærilegt eftirlit í bakarí árið 2015 og segir í tilkynningunni að þörf sé á að framkvæma það oftar. Neytendur eru hvattir til að halda áfram að senda inn ábendingar í gegnum heimasíðu Neytendastofu, ef þeir verða varir við ófullnægjandi verðmerkingar. 

Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV