Verðfall við opnun markaða í Bandaríkjunum

17.05.2017 - 15:10
Götuskilti á Wall Street í New York.
 Mynd: Freephotosbank
Hlutabréf féllu í verði við opnun markaða í Bandaríkjunum í dag. Dagblaðið New York Times segir að ástæðan sé óróleiki í stjórnmálum vestra þar sem Donald Trump forseti eigi í erfiðleikum. Kaupahéðnar á Wall Street óttist að veikist staða forsetans verði erfitt fyrir hann að standa við kosningaloforð um skattalækkanir og afnám reglugerða.

Fréttir um að Trump hafi reynt að fá fyrrverandi yfirmann alríkislögreglunnar FBI til að hætta rannsókn á tengslum Michael Flynns, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgja, við Rússa og að hann hafi sagt Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, frá viðkvæmum leyniupplýsingum hafa valdið uppnámi í stjórnmálalífi vestra.

Þá nefnir New York Times einnig að menn hafi áhyggjur af veikri stöðu verslunar og bílaframleiðenda. ,,Hræðsluvísitalan" VIX (Volatility index) hækkaði um 20 prósent sem bendir til að kaupahéðnar hafi ekki eins mikla trú á efnahagsþróuninni. 

 

 

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV