Venesúela: Flokksystkin Maduros sigri hrósandi

05.08.2017 - 03:28
epa06125247 Representatives elected to the National Constituent Assembly pose for the official photo, in Caracas, Venezuela, 04 August 2017.  Former Foreign Minister Delcy Rodriguez (C-L) was named president of the National Constituent Assembly (ANC) that
 Mynd: EPA  -  EFE
Flokkssystkin Nicolas Maduros, forseta Venesúela, þrömmuðu sigri hrósandi í þinghús landsins í Karakas í dag, föstudag, ef marka má lýsingar New York Times. Tók þar með til starfa umdeilt stjórnlagaþing sem kosið var um síðustu helgi. Hlutverk þess verður að endurskrifa stjórnarskrá landsins og Maduro segir að það muni færa landinu frið eftir mánaðalanga stjórnarkreppu. Stjórnarandstaðan segir hins vegar að með fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskrá eigi að greiða leiðina að einræði í landinu.

Hávær mótmæli voru í Karakas í dag og beitti lögregla mótmælendur táragasi þegar þeir reyndu að komast inn í þinghúsið, segir í frétt BBC. Fulltrúar stjórnlagaþingsins stóðu hins vegar hnarreistir fyrir framan þinghúsið, kölluðu stuðningsorð og sungu þjóðsönginn með myndir af Hugo Chavez á lofti. Fjöldi ríkja og alþjóðasamtaka hafa hafnað niðurstöðu kosninganna og fyrirætlunum Maduros. 

Myndir af Chavez eru „táknrænt högg“

Fulltrúar stjórnlagaþingsins komu táknrænu höggi á stjórnarandstöðuna þegar þeir gengu í þinghúsið, segir í frétt New York Times. Héldu þeir á lofti portrettmyndum af Hugo Chavez, fyrrum forseta landsins og leiðtoga Sósíalistaflokksins, PSUV, til 2012. Maduro er núverandi formaður flokksins. Stjórnarandstöðuflokkarnir létu taka sömu portrettmyndir niður af veggjum í fyrra.

Á stjórnlagaþinginu sitja 545 fulltrúar, allir úr Sósíalistaflokknum og stuðningsflokkum hans. Þeirra á meðal eru eiginkona Maduros forseta, sonur hans og nokkrir nánir samstarfsmenn í stjórnkerfinu.

Þingið fær víðtækar heimildir til að endurskipuleggja og jafnvel leysa upp ríkisstofnanir jafnframt því að semja landinu nýja stjórnarskrá. Stjórnarandstaðan segir að tilurð stjórnlagaþingsins gangi í berhögg við stjórnarskrá landsins. Þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem eru í meirihluta á þjóðþinginu, segjast ekki ætla að viðurkenna neitt sem hið nýja þing lætur frá sér fara.

Sjá frétt New York Times hér og frétt BBC hér.

epa06125403 Opposition demonstrators protest against the National Constituent Assembly in Caracas, Venezuela, 04 August 2017. Venezuela is installing the 500 member assembly denounced by opposition groups and international leaders and which will rewrite
 Mynd: EPA  -  EFE
Hávær mótmæli voru í Karakas og beitti lögregla mótmælendur táragasi
Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV