Vel heppnaður leikur með frásagnarstíl og form

Bókmenntagagnrýni
 · 
Bókmenntir

Vel heppnaður leikur með frásagnarstíl og form

Bókmenntagagnrýni
 · 
Bókmenntir
Mynd með færslu
13.01.2017 - 10:00.Halla Þórlaug Óskarsdóttir
„Í Draumrof leikur Úlfar sér með frásagnastílinn og formið, meðvituð hugsun um trúverðugleika sögumannsins og miðlun sögunnar í gegnum temprað vitundaflæði gerir það að verkum að bókin er mjög vel heppnuð,“ segir Andri Kristjánsson um bókina Draumrof eftir Úlfar Þormóðsson. Hann segir helsta styrk bókarinnar felast í valdi höfundar á skáldskapnum og getu til að leika sér með formið.

Andri Kristjánsson skrifar:

Bókin Draumrof eftir Úlfar Þormóðsson kom út fyrir jólin 2016 og markaði 50 ára útgáfuafmæli höfundar. Á ferli sínum hefur hann meða annars gefið út smásögur, sögulegar skáldsögur og sinnt ritstjórnarstörfum.

Draumrof hefst á því að aðalpersóna verksins, sem er nafnlaus, kemst að því að gamall vinur hans sem er rithöfundur, hefur tekið neyðarlegt atvik úr lífi aðalpersónunnar og nýtt það í skáldverk. Í framhaldinu ákveður aðalpersónan að gera ráðstafanir svo að rithöfundurinn geti ekki notfært sér önnur atvik úr lífi hans í skáldverk. Aðalpersónan hefst handa við að skrifa eins konar sjálfsævisögu og til þess að öðlast meiri vitneskju um hvað rithöfundurinn er að skrifa ákveður aðalpersónan að hakka sig inn í tölvu rithöfundarins.

Tætingslegar hugsanir

Söguþráðurinn segir frá lífi aðalpersónunnar og kynnum hans af rithöfundinum, blandað saman við tætingslegar hugsanir aðalpersónunnar. Þetta gerir það að verkum að söguþráðurinn er sveipaður nokkurri dulúð og lesandanum eru veittar upplýsingar um persónur og atburði verksins á þann hátt að erfitt er að fjalla um söguþráðinn án þess að spilla ákveðnum uppljómunum fyrir lesandanum. Hann er samt sem áður góður og heldur lesandanum nokkuð vel í gegnum bókina, það er helst rétt fyrir lokin sem sagan dalar ögn en nær sér svo aftur á strik á síðustu blaðsíðunum. Söguþráðurinn er fléttaður saman af 1. og 2. persónu frásögnum og tekst Úlfari vel til þegar hann nýtir sér hið, oft á tíðum erfiða form 2. persónu frásagnar en með því að hafa innbyggðan lesanda sem persónu í verkinu leysir hann það verk vel af hendi. 

Innbyggður höfundur og lesandi

Aðalpersónan sem jafnframt er sögumaður verksins skrifar textann til rithöfundarins, þannig hefur sagan bæði innbyggðan höfund og innbyggðan lesanda sem eru persónur í verkinu sjálfu. Upplifun lesandans verður þar af leiðandi svipuð og upplifun aðalpersónunnar þegar hann hakkar sig inn í tölvu rithöfundarins. Þetta stílbragð gerir það að verkum að lesandinn upplifir sig að einhverju leyti sem óviðkomandi í textanum en á sama tíma uppfyllir stílbragðið gægjuþörf lesandans, ekki ósvipað raunveruleikaþáttum samtímans. Munurinn er sá að frásögn bókarinnar veitir lesandanum aðgang að hugsunum aðalpersónunnar sem eru oft á tíðum tætingslegar og ekki endilega í réttri röð en það gerir gægjurnar trúverðugri og þeim mun meira spennandi fyrir vikið.

Svarthol í gangstéttarhellu

Aðgangur lesandans að hugsunum aðalpersónunnar er einnig hluti af leik Úlfars með trúverðugleika sögumannsins, sem er véfengdur frá fyrstu blaðsíðu bókarinnar. Aðalpersónan sér svarthol í gangstéttarhellu á Skólavörðustígnum og er ekki viss um hvort það sé raunin eða ofskynjun. Til öryggis færir hann fótinn frá svartholinu og fellur í kjölfarið í jörðina. Eins skýtur alzheimer sjúkdómurinn reglulega upp kollinum í sögunni og minnir á þann möguleika að sögumaðurinn gæti verið að leiða lesandann á villigötur.

Undirliggjandi viðfangsefni bókarinnar er ritun sögunnar sjálfrar og ber hún því ákveðin metafiction eða sögusagna einkenni. Í bókinni má hvað eftir annað finna setningar sem benda lesandanum á að hann er ekki þátttakandi í atburðarás, heldur er hann að lesa texta. Þetta stílbragð gerir það að verkum að lesandinn fær ekki að gleyma sér í söguþræðinum, heldur er hann truflaður og í leiðinni hvattur til að ígrunda form sögunnar.

Temprað vitundarflæði

Í Draumrof leikur Úlfar sér með frásagnastílinn og formið, meðvituð hugsun um trúverðugleika sögumannsins og miðlun sögunnar í gegnum temprað vitundaflæði gerir það að verkum að bókin er mjög vel heppnuð. Þrátt fyrir að söguþráðurinn missi flugið á einum stað, kemur það ekki að sök. Helsti styrkur bókarinnar felst í valdi höfundar á skáldskapnum sjálfum og getu hans til að leika sér með formið.