Veikir skátar í skólanum fram á sunnudag

11.08.2017 - 18:15
Skátarnir sem veiktust af nóróveiru í Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni í gær gista í fjöldahjálparmiðstöðinni í Grunnskóla Hveragerðis fram á sunnudag. Þeir sem ekki veiktust fá gistingu annars staðar í Hveragerði. Þeir sem veiktust eru á batavegi og langflestir útskrifast í dag eða á morgun.

Á fundi aðgerðastjórnar síðdegis kom fram að nóróveiran sé hefðbundin magapest, það sem kalla mætti heimilismagapest. Samkvæmt tilkynningu á vef Lögreglunnar á Suðurlandi virðist sýkingin vera í rénun og voru sex enn veikir síðdegis. 63 veiktust af þeim 181 sem fluttur var af skátasvæðinu við Úlfljótsvatn í fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum í Hveragerði.

Þegar er farið að útskrifa þá sem ekki veiktust. „Þeir sem voru heilir heilsu eru að fara í gistingu í Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði og Skátaheimilið í Hveragerði. Skátarnir sem veiktust munu hinsvegar búa áfram í Grunnskólanum í Hveragerði fram á sunnudag. Við náðum ekki að leysa það verkefni,“ segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta. 

Skátasvæðið á Úlfljótsvatni verður lokað fram á sunnudagskvöld. Heilbrigðiseftirlitið tók sýni og heimilaði skátum að byrja sótthreinsunarstarf sem hefst á morgun. Enginn fær þó drykkjarvatn úr krönum fyrr en niðurstöður sýnatöku liggja fyrri.

Hermann segir starfið hafa gengið vel í dag þó í mörg horn hafi verið að líta. Það hafi hjálpað til við viðbrögðin þegar skorið var úr um hvað væri við að etja. Þegar menn vissu að þetta væri nóróveira gátu þeir ákveðið viðbrögð. „Við erum nýbúin að halda risastórt skátamót sem lauk fyrir viku. Þar vorum við í raun og veru búin að undirbúa alla ferla og endurskoða það fyrir mótið. Við erum að nota þá ferla í dag. Þannig að þegar þetta kemur upp þá vitum við nákvæmlega hvað við eigum að gera.“

Hermann segir að góður undirbúningur hafi nýst vel. „Þessir sjálfboðaliðar og aðrir sem hafa komið að verkefninu, björgunarsveitirnar, Rauði krossinn og fleiri viðbragðsaðilar hafa staðið sig mjög vel. Ég vil koma á framfæri þakklæti til þeirra.

Viðlegubúnaður sumra skáta skemmdist í veikindunum. Búið er að útvega nýjan viðlegubúnað fyrir þá sem lentu í því. 

Tuttugu skátar áttu að koma á Úlfljótsvatn í kvöld auk þess sem búið var að skipuleggja skátamót þar um helgina. Búið er að flytja hvort tveggja í Hafnarfjörð.