Vegurinn um Öræfi líklega lokaður í allt kvöld

10.05.2017 - 16:29
Fréttamenn RÚV hafa verið á ferðinni í dag um allt land til að fylgjast með veðri og færð, meðal annars á Gemlufallsheiði, Öxnadalsheiði og Egilsstöðum. Litlar líkur eru á því að þjóðvegur 1 um Öræfi verði opnaður í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, en vegurinn hefur verið lokaður síðan klukkan ellefu í morgun. Gangi veðurspár eftir eru þó meiri líkur á því að umferð verði hleypt á veginn undir Eyjafjöllum, en þó er ekki hægt að lofa því.

Um klukkan 17:30 verður reynt að fara yfir Steingrímsfjarðarheiði, en þar ætla starfsmenn Vegagerðarinnar að fylgja ökumönnum yfir. Slíkt gæti þó orðið flókið, því þar er mikið krap og færðin erfið fyrir bíla á sumardekkjum.

Tryggvi Aðalbjörnsson, fréttamaður, er staddur á Suðurlandi og fór meðal annars að þeim stað þar sem björgunarsveit lokar veginum undir Eyjafjöll rétt austan við Markarfljót. Þar taldi hann um tuttugu bíla nú síðdegis, en segir að einhverjir hafi þó ekki virt lokunina og keyrt áfram. Sumir ferðamannanna áttu pantaða gistingu innan þess svæðis sem er vegurinn liggur um og aðrir enn austar. Flestir hafi þó sýnt því skilning að búið væri að loka veginum, en þeir hafi þó ekki haft miklar upplýsingar um það þegar þeir komu að björgunarsveitarbílnum.

Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson  -  RÚV
Tryggvi taldi um 20 bíla sem höfðu stöðvað rétt austan við Markarfljót.

Ferjan Baldur siglir nú til Landeyjahafnar og mun fara aftur til Vestmannaeyja í dag. Þetta er fyrsta ferð ferjunnar í dag, en fylgjast má með staðsetningu hennar á vef Eimskips.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  Eimskip.is
Þetta skjáskot var tekið klukkan 16:15.

Sem fyrr segir hafa fréttamenn RÚV verið á ferðinni í dag og hér efst í færslunni má sjá myndskeið af tilraunum Höllu Ólafsdóttir, fréttamanns á Vestfjörðum, til þess að segja eitthvað vitrænt í hljóðnemann meðan hún stendur á veginum yfir Gemlufallsheiði. Eins og sést var það enginn barnaleikur. Sunna Valgerðardóttir, fréttamaður á Norðurlandi, lenti í svipuðum erfiðleikum í mikilli hríð á Öxnadalsheiði, eins og sjá má hér að neðan. Þeim vegi, sem og öðrum á Norðurlandi, hefur þó ekki verið lokað í dag.

Á Egilsstöðum var Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður á Austurlandi, á ferðinni og rakst á þýska ferðalanginn Clemens Schröder sem var að reyna að krækja sér í far til Akureyrar. Sá hafði staðið úti í fjóra klukkutíma án þess að komast nokkuð áleiðis og var skiljanlega orðinn kaldur. Viðtalið er á ensku, en fyrir neðan myndskeiðið má sjá lauslega þýðingu á því.

„Ég hef núna beðið í fjóra klukkutíma, ég var frekar snemma á ferð í morgun og var ekki mjög heppinn.

Afhverju heldur þú að enginn hafi stoppað? 

Kannski vegna veðursins, eins og sést er stormur og rigning og kannski vill fólk ekki fá blautan puttaling inn í bílinn, ég veit ekki.

Vissir þú að það er ekki góð færð á fjallvegum á Norðurlandi?

Nei, ég kom að sunnan og er að reyna að komast norður til Akureyrar, en það hefur ekki tekist.

Ertu að hugsa um að gefast upp á þessu í dag?

Líklega já, því veðrið er svona og ef vegum er lokað þá kemst ég ekki neitt,“ segir Clemens.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV