Vegfarendur fylgist vel með færð á morgun

09.05.2017 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd: Ægir Þór Hafsteinsson  -  RÚV
Veðurstofan varar við stormi seint í nótt á Vestfjörðum og um mestallt land á morgun. Vindhraði fer þá vel yfir tuttugu metra á sekúndu. Norðan heiða verður snjókoma til fjalla og veðurfræðingur hvetur ferðalanga til að fylgjast vel með færð.

„Það getur nú orðið ansi vetrarlegt, sérstaklega til fjalla mun snjóa og færð og skyggni getur spillst á fjallvegum og það getur orðið ansi vetrarlegt þar. En sunnan til, sérstaklega á láglendi verður þetta kannski minna vetrarlegt,“ segir  Arnór Tumi Jóhannsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni. Í kvöld byrjar að hvessa á Vestfjörðum og veðrið versnar síðan um allt land á morgun.

„Það byrjar að hvessa í kvöld af norðaustri á Vestfjörðum og það verður væntanlega kominn stormur svona upp úr miðnætti. Svo hvessir enn frekar til morguns og það má gera ráð fyrir að það nái jafnvel 25 metrum á sekúndu þar í fyrramálið. Í kjölfarið á morgun, þá hvessir víðast á landinu og verður stormur í flestum landshlutum, kannski síst á Austurlandi,“ segur Arnór Tumi.

Samkvæmt öllu ættu ökumenn að vera búnir að skipta nagladekkjum út fyrir sumardekk og víða fylgist lögreglan með því hvort svo sé. Blíðviðrið síðustu daga hefur ýtt undir dekkjaskipti og því þurfa vegfarendur að fara með gát á morgun, sérstaklega norðan heiða.

„Það væri mjög gott að fylgjast með fréttum af veðri og færð og fara varlega. Eins og ég segi, sérstaklega á fjallvegum þar sem það getur myndast hálka og leiðinleg færð og skyggni getur farið versnandi,“ segir Arnór Tumi.

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV