Vegagerðin óhræddari við að loka vegum

11.05.2017 - 14:21
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sem starfar fyrir Vegagerðina segir lokanir á vegum á Suðurlandi séu til marks um að hún leggi meiri áherslu að loka vegum til að fyrirbyggja tjón og slys. Í gær hafi mælst hviður bæði undir Eyjafjöllum og í Öræfasveit yfir 50 metra á sekúndu sem sé óvenju mikið miðað við árstíma.

Lokað til að fyrirbyggja vandræði

„Lokanirnar eru varúðarráðstöfun. Það er verið að koma í veg fyrir það að fólk fjúki hreinlega út af. Sérstaklega er mjög varasamt í Öræfaveitinni þar sem vindurinn er þvert á veginn og akstursstefnuna. Það urðu engin óhöpp þó að fólk hafi lokast inni og þurft að breyta áætlunum sínum þá er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að fólk lendi í vandræðum. Eins líka þegar gripið er til lokana á fjallvegum að þá er það gert í hríðarveðri til að koma í veg fyrir að bílar festi sig og vegirnir lokist af sjálfu sér,“ segir Einar.

Margir óvanir á ferðinni

Aðspurður um hvort Vegagerðin hafi hert reglur um lokanir segir Einar: „Vegagerðin hefur tekið upp ný vinnubrögð og það er reynt að gera eins og hægt er og grípa til lokana. Ekki síst vegna þess að menn vita að það er mikil umferð á Suðurlandi og margir ferðamenn sem eru hér í stutta stund á bílaleigubílum og ætla austur í Jökulsárlón. Það þarf einfaldlega að vera betur og meira á varðbergi gagnvart hvössum vindum og ekki síður sandfoki á Skeiðarársandi en var áður.“

Spáir snjókomu fyrir austan

Og veðurspár gera ráð fyrir áframhaldandi hvassviðri og ofankomu. „Í rauninni er vindur að ganga heldur niður í dag. Lægðin fyrir sunnan landið er kyrrstæð og færist heldur í aukana til morguns og skil hennar koma aftur inn þannig að það hvessir í fyrramálið til dæmis í Öræfunum og eins undir Eyjafjöllum. Það gerist í nótt og verður í hámarki snemma í fyrramálið en svo lagast veðrið þar. Síðan er spáð snjókomu og talsvert mikilli snjókomu í fjöll austanlands. Það gæti jafnvel snjóað í byggð um tíma annað kvöld. Þetta eru 50-70 mm í það heila fram á laugardagsmorgun. Á fjallvegum á Vestfjörðum er líka spáð hríðarveðri annað kvöld og fram á laugardagsmorgun,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.