Vaxtalækkun hafi ekki áhrif á húsnæðisverð

17.05.2017 - 20:07
Seðlabankastjóri telur að stýrivaxtalækkunin í dag hafi ekki áhrif á húsnæðisverð, sem hefur hækkað um tæp 23% á tólf mánuðum. Seðlabankastjóri segir að bankinn ákveði stýrivexti á grundvelli stöðunnar eins og hún er í efnahagslífinu og megi ekki láta annað, eins og þrýsting stjórnmálamanna, hafa áhrif á sig.

Litlar breytingar hafa verið á stýrivöxtum Seðlabankans síðustu árin. Línurit vaxta Seðlabankans frá því í júní 2012 hefur verið nokkuð í ætt við sjóndeildarhringinn. Stýrivextir voru lækkaðir um tuttugu og fimm punkta í desember og urðu þá 5%. Í morgun voru svo vextirnir lækkaðir í 4,75%. 

Seðlabankastjóri segir að þrjár meginástæður liggi að baki lækkuninni. Minni verðbólga, hærri raunvextir og sterkari króna. „Sumir myndu segja að þetta sé mjög skrítið að við séum að lækka vexti þegar hagvöxtur er 7,3% í fyrra og 6,3% í ár í hagkerfi sem þegar er komið í spennu. En þarna hefur líka áhrif að það er vegna aukins innflutnings vinnuafls og aukinnar framleiðni. Þetta gerir það að verkum að við getum vaxið hraðar en ella án þess að það slái út í spennu, launaskriði og þvílíku,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. 

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um tæp tuttugu og þrjú prósent á síðustu tólf mánuðum. Hefur stýrivaxtalækkunin áhrif á húsnæðisverð? „Nei, ég held húnhafi ekki mikil áhrif þar,“ segir Már. 

Samtök atvinnulífsins hafa lengi kallað eftir því að stýrivextir verði lækkaðir. Í frétt á vef samtakanna í dag segir að lækkunin sé kærkomin og  löngu tímabær. Fjármálaráðherra hefur sagt réttast að Seðlabankinn lækkaði vexti duglega og forsætisráðherra sagði heppilegt ef bankinn lækkaði vexti. „Við reynum bara að taka ákvarðanir á grundvelli stöðunnar eins og við sjáum hana og það er okkar skylda og við megum ekki láta annað hafa áhrif á okkur,“ segir Már.