Vatnsborð í ám hækkað um tæpa tvo metra

19.07.2017 - 09:53
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson  -  RÚV
Það hefur vaxið töluvert í ám á sunnan- og vestanverðu landinu eftir rigningu gærdagsins, mest í ám kringum Mýrdalsjökul og í Borgarfirði. Vatnsborð hækkaði mest í Hólmsá við Hrífunes, austan Mýrdalsjökuls, fór úr 75 sentimetrum yfir 250 sentimetra um miðnætti.

Það tók að hækka í ám á sunnanverðu landinu og á hálendinu síðdegis í gær eftir miklar rigningar frá því um miðjan dag. Vatnshæð hefur hækkað í flestum ám um tuttugu til fimmtíu sentimetra. Á vef Vegagerðarinnar segir að það rigni áfram syðra í dag og búist við talsverðum vatnavöxtum í Þórsmörk og að Fjallabaki. Lögreglan á Suðurlandi lokaði veginum inn í Þórsmörk í gærkvöld vegna vatnavaxta. Þá er Fjallabaksleið nyrðri lokuð milli Hólaskjóls og Landmannalauga vegna vatnavaxta og sömuleiðis Lakavegur. 

Það er ekki aðeins syðst á landinu sem vaxið hefur í ám. Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi hafa einnig verið miklir vatnavextir í ám í Borgarfirði, bæði í Norðurá og Hvítá. 

Það var hvassviðri og ausandi rigning víða á sunnanverðu landinu í gær. Hundblautir ferðamenn voru missáttir við íslenska sumarið. 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV