Varhugavert að eiga allt undir atvinnurekanda

11.04.2017 - 15:15
Undanfarið hafa borist fréttir af því að stórir vinnuveitendur á borð við IKEA og Bláa lónið ætli að byggja fjölbýlishús og leigja starfsmönnum sínum íbúðir. Það er jákvætt að að launagreiðendur vilji tryggja starfsfólki mannsæmandi húsnæði en um leið getur það verið varhugavert að vinna og húsnæði séu svo nátengd, segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins. 

 

Hún heldur að þetta sé mjög eðlilegt viðbragð hjá fyrirtækjum sem vantar starfsfólk og hafa áhyggjur af því að starfsfólkið sé í óviðunandi húsnæði. Þetta er ein birtingarmynd af óviðunandi húsnæðismálum. Hún telur ekki að það sé óskastaða fyrirtækja að þurfa að skaffa starfsmönnum húsnæði, né sé það óskastaða verkalýðshreyfingarinnar að starfsfólk sé háð atvinnurekandanum um húsnæði. Þetta er þó mjög skiljanlegt í ljósi þess hvernig statt er á markaðnum. Drífa vill vara við þeirri þróun að vinna og húsnæði séu svona nátengd; fólk geti ekki sagt upp vinnu án þess að missa húsnæðið. 

Nokkur atvik þar sem fólki er gert að rýma samstundis

Starfsgreinasambandið hefur fengið nokkur mál inn á sitt borð þar sem fólk er í vandræðum vegna slíkrar samtvinnunar húsnæðis og atvinnu. Sambandið hefur lagt mikla áherslu á að þetta sé aðgreint og það séu gerðir aðskildir samningar, annars vegar ráðningarsamningur og hins vegar leigusamningur. Drífa segist ekki hafa áhyggjur af því hjá þessum stóru fyrirtækjum að ekki sé farið að húsaleigulögum um uppsögn á húsnæði og fresti en þess séu þegar dæmi hjá minni fyrirtækjum að fólki er sagt upp og verður samstundis að fara úr íbúðum sem atvinnurekandinn útvegar.

Það vantar vinnuhendur víða, segir Drífa, mörg fyrirtæki fá starfsfólk erlendis frá og það verður æ algengara að starf og húsnæði sé tvinnað saman. Það sé ákveðinn munur á því sem nú er talað um að fólk leigi af vinnuveitenda framtíðar eða því að ráða sig einhvers staðar tímabundið og fá húsnæði á meðan, eins og á verbúðum til dæmis. 

Þarf að koma böndum á airbnb-væðinguna

Ekki sé búandi við ástandið á húsnæðismarkaði, verkalýðsfélögin hafi enda stofnað nýtt húsnæðisfélag og ætli að byggja hús með íbúðum fyrir fólk sem er undir vissum tekjumörkum. Víða sé verið að byggja í borginni en Drífa segir að það verði líka að huga að því hvort koma megi böndum á útleigu til ferðamanna. Það sé alþjóðleg umræða því húsnæðisskortur sé í nær öllum borgum í kringum okkur og airbnb-væðingin taki ekki bara til sín skerf af húsnæði í boði, heldur þvingi hún upp húsnæðisverð og húsaleiguna líka. 

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi