Vantar réttarmeinafræðing í máli Birnu

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Ekki er búist við því að aðalmeðferð í máli Thomasar Möller Olsen sem er ákærður fyrir að hafa myrt Birnu Brjánsdóttur um miðjan janúar á þessu ári, verði fyrr enn seint í sumar eða í haust. Búið er að dómkveðja bæklunarlækni en enn á eftir að finna réttarmeinafræðing. Þrír koma til greina, þeir eru allir útlendingar og því þarf að þýða öll gögn fyrir þann sem verður fyrir valinu.

Við fyrirtöku í síðustu viku óskaði verjandi Olsen eftir að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn - bæklunarlæknir og réttarmeinafræðingur.

Verjandinn hyggst leggja tvær spurningar fyrir þann fyrrnefnda en fimm fyrir þann síðarnefnda. Bæklunarlækninum er meðal annars ætlað að svara spurningum sem varða líkamlegt ástand Olsen. 

Ragnar Jónsson, bæklunarlæknir, var dómkvaddur við fyrirtöku í dag og honum gefnar fjórar vikur eða til 16. júní til að skila álitsgerð sinni.  Hins vegar hefur ekki tekist að finna réttarmeinafræðing til að svara fimm spurningum verjandans en dómari í málinu upplýsti við fyrirtöku í dag að þrír kæmu til greina.

Þeir eru hins vegar allir útlendingar enda er enginn á Íslandi sem sinnir þessu starfi. Þegar búið er að finna rétta manninn í verkið verður  að þýða öll gögn og því má reikna með að aðalmeðferð í málinu verði ekki fyrr en síðla sumars eða jafnvel í haust.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV