Vantar meiri peninga frá Kínverjum

15.05.2017 - 15:08
Mynd með færslu
 Mynd: 641.is
Framkvæmdir við norðurljósarannsóknarstöð Kínverja í Reykjadal á Norðurlandi hafa tafist. Upphaflega stóð til að hefja rannsóknir í húsinu haustið 2016, en húsið er nokkuð langt frá því að vera fullklárað og framkvæmdir ganga hægt. Ástæðan er sögð styrking krónunnar og hækkun byggingarkostnaðar, en forsvarsmenn verkefnisins hér á landi eru á leið til Kína í næstu viku, meðal annars til þess að ræða um framhaldið. Byggingarkostnaður var áætlaður rúmar 200 milljónir en hefur hækkað talsvert.

Hornsteinn við hátíðlega athöfn í október

Fyrsta skóflustungan að rannsóknarstöðinni var tekin í júní árið 2014. Í framhaldinu hófst hönnun og annar undirbúningur framkvæmda, en hornsteinn var lagður að byggingunni við hátíðlega athöfn í október síðastliðnum, að viðstöddum meðal annars þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, og Sun Shuxian, aðstoðarráðherra Hafmálastofnunar Kína. Norðurljósarannsóknarstöðin er til þess fallin, eins og nafnið gefur til kynna, að rannsaka norðurljósin og er alfarið fjármögnuð af Kínverjum. Hún heitir Kárhóll, China-Iceland Joint Aurora Observatory, eða CIAO, og á að verða rannsóknamiðstöð fyrir vísindamenn sem rannsaka norðurljósin í alþjóðlegu samstarfi. Vísindalegt markmið þessa samstarfs er að efla skilning á samspili sólar og jarðar annars vegar og geimveðri hins vegar, með því að framkvæma athuganir í háloftum á heimskautasvæðum, t.d. á norðurljósum, breytileika í segulsviði og öðrum tengdum fyrirbærum," er fram kemur á vef Rannís. Heimskautastofnun Kína (Polar Research Institute of China) leiðir samstarfið fyrir kínversku samstarfsaðilana. Heildarstærð byggingarinnar er 760 fermetrar að meðtalinni gestastofu og fyrirlestrasal.  

Ætluðu fyrst að hefja rannsóknir síðasta haust

Upphaflega átti að hefja rannsóknir í miðstöðinni haustið 2016, en þegar hornsteinninn var lagður var búið að fresta þeim fram á mitt ár 2017. Nú er staðan hins vegar sú að framkvæmdir eru stopp. Búið er að loka húsinu og ganga frá stálvirkjum, og að sögn Þorsteins Gunnarssonar, verkefnisstjóra hjá Rannís og eins forsvarsmanna verkefnisins á Íslandi, er eitthvað af lögnum komið í húsið. 

Fjármögnun í uppnámi vegna styrkingar krónunnar

Hallgrímur Jónasson, framkvæmdastjóri Rannís, segir í samtali við fréttastofu að fulltrúar frá Íslandi eigi fund með fulltrúum Heimsskautastofnunar Kína (PRIC) í Kína í næstu viku til að fara yfir stöðuna. Það sé ekkert lát á vilja Kínverja að láta verkefnið verða að veruleika, en vegna styrkingar krónunnar og þenslu á vinnumarkaði þarf að endursemja um fjármögnun, en allir peningar í verkefnið koma frá Heimskautastofnuninni. 

„Jákvæð áhrif á nærumhverfi stöðvarinnar”

Á heimasíðu Rannís segir um verkefnið: „Uppbygging rannsóknamiðstöðvar að Kárhóli mun hafa jákvæð áhrif á nærumhverfi stöðvarinnar, bæði hvaða varðar atvinnulíf og þekkingarmiðlun á svæðinu.  Miðstöðin mun verða opin almenningi og mynda brú milli vísinda og daglegs lífs með rekstri gestastofu  og verða þannig hluti af þjónustuframboði og afþreyingarmöguleikum í Þingeyjarsveit."

Mun hærri kostnaður en búist var við

Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Aurora Observatory, sem er sjálfseignarstofnun heimamanna á svæðinu, og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, segir ákveðinn verkþátt í gangi þessa dagana varðandi tjörudúksþök með sérhæfðum verktökum. 

„Það er hægagangur á næsta þætti þar sem við höfum tvennt sem vinnur á móti okkur: gengisþróunin sem er að koma illa við okkur, allar greiðslur eru bundnar í kínverskum juanum, og að framkvæmdakostnaður er mun hærri heldur en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir," segir Reinhard. „Þetta þýðir að kostnaðurinn bara við gengisbreytingar er rúmlega 20 prósent. Það er ljóst að menn þurfa að leysa þennan mismun til að geta haldið áfram með tímaáætlanir."

Fara til Kína í næstu viku

Upphaflegur verktakakostnaður við byggingu hússins var 204,3 milljónir króna. Reinhard segist ekki getað fullyrt hversu mikið hann hefur hækkað, en verktakakostnaður hefur aukist um að minnsta kosti 40 prósent, til viðbótar við styrkingu krónunnar. 

Enn er vonast til þess að rannsóknir geti hafist í húsinu í haust og ferðin til Kína er meðal annars til þess gerð að fara yfir stöðuna.