Vannýtt leikskólapláss

30.10.2011 - 12:07
Mynd með færslu
Börn fædd árið 2010 komast líklega ekki á leikskóla fyrr en næsta haust, segir leikskólastjóri í Reykjavík. Þetta sé afleiðing pólitískrar ákvörðunar, sem heimili ekki innritun þessara barna, þótt 900 séu á biðlista.

Á leikskólanum Gullborg eru 12 laus pláss á yngstu deild leikskólans, þar sem færri börn fædd 2009 þurftu pláss en gert var ráð fyrir, eða 14 í stað 26. Laus pláss eru einnig á leikskólum í Grafarvogi, Árbæ og víðar. Um 900 börn fædd 2010 eru nú á virkum biðlista eftir leikskólaplássi.

Laus pláss

Elstu börn í 2010 árganginum voru orðin 18 mánaða í upphafi þessa skólaárs, og bjuggust margir foreldrar við því að þau fengju inni á leikskólum eins og tíðkast hefur. Samkvæmt Margréti Elíasdóttur, leikskólastjóra í Blásölum, leyfa borgaryfirvöld það ekki.
„Nú erum við til dæmis búin með öll börn á okkar biðlista sem eru fædd 2009 en eigum ennþá laus fjögur pláss sem við getum ekki tekið inn í, vegna þess að við höfum bara ekki leyfi til að taka inn börn fædd 2010,“ sagði Margrét í viðtali við fréttastofu RÚV.

Pólitísk ákvörðun
„Þetta er náttúrulega pólitísk ákvörðun sem kemur frá ráðhúsinu þannig að við fylgjum því bara eftir og tökum ekki inn á þessu skólaári börn fædd 2010, þannig að ég geri ráð fyrir því að þau börn fædd 2010 komi ekki inn fyrr en næsta sumar eða næsta haust,“ sagði Margrét að lokum.

Samkvæmt upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg er helsti kostnaðurinn fólginn í fjölda starfsmanna sem þurfi til að annast börnin og því segi fjöldi lausra leikskólaplássa aðeins brot af sögunni. Á að minnsta kosti þremur leikskólum borgarinnar sem fréttastofa kannaði aðstæður, sagðist leikskólastjórinn geta tekið við fleiri börnum án þess að fjölga starfsfólki sínu. Lausu plássin mætti einfaldlega ekki nýta.

Velta kostnaði yfir á foreldra

Móðir drengs sem fæddur er 2010 segir borgaryfirvöld velta kostnaði yfir á herðar foreldra með því að innrita ekki 2010 árganginn í leikskóla fyrr en á næsta ári.

Niðurgreiðsla Reykjavíkurborgar til dagforeldra er 37.000 krónur á mánuði á hvert barn miðað við heilsdagsvistun. Sambærileg niðurgreiðsla vegna leikskólapláss er hinsvegar 133.000 krónur að meðaltali. Af þessu leiðir að því seinna sem börn innritast á leikskóla, því fjárhagslega hagkvæmara er það fyrir Reykjavíkurborg. Þetta kemur sér verr fyrir foreldra, þar sem gjald vegna vistunar hjá dagforeldri getur verið allt að því þrefalt hærra en á leikskóla, eða 65 þúsund krónur á mánuði samanborið við 22.000 krónur á leikskóla. Berglind Kristinsdóttir er þriggja barna móðir, en sonur hennar fæddist í janúar 2010. Þar sem innritun 2010 árgangsins á leikskóla hefst ekki í ár, jafnvel þar sem laus pláss eru og nægt starfsfólk, mun sonur Berglindar að öllum líkindum ekki fá inni á leikskóla fyrr en næsta haust, þá tæplega þriggja ára gamall. Berglind segir að með þessu sé borgin að spara á niðurskurðartímum með því að velta kostnaði yfir á herðar foreldra.

„Þetta er furðuleg staða og erfið staða fyrir alla aðila en það er samt grimmt að foreldrar og fjölskyldur skuli þurfa að standa undir þessum kostnaði og standa undir sparnaði borgarinnar,“ sagði Berglind í viðtali við fréttastofu RÚV.

Berglind bendir á að leikskólastigið sé fyrsta skólastig landsins og að sonur hennar fari á mis við heilt ár í leikskólakennslu.

„Þetta er gríðarlega íþyngjandi fyrir foreldra að þurfa að sitja uppi með börnin sín hjá dagforeldrum til tæplega þriggja ára aldurs,“ sagði Berglind að lokum.