Vænta niðurstöðu úr sýnatöku síðar í dag

11.08.2017 - 15:37
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV
Vænta má niðurstöðu úr sýnatöku vegna magakveisunnar sem upp kom á Úlfljótsvatni eftir miðjan dag í dag. 63 skátar á aldrinum 10-25 ára fengu einkenni magakveisunnar, en 181 var fluttur í fjöldahjálparmiðstöð í Hveragerði í gærkvöld og nótt.

Landspítali rannsakar sýni

Í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands segir að enn séu að koma upp einkenni hjá nýjum einstaklingum og aðrir séu á batavegi og enn aðrir einkennalausir.  Engin er, eða hefur verið, alvarlega veikur þannig að til sjúkrahúsinnlagnar hafi komið.   Nú er beðið niðurstöðu rannsókna á sýnum sem þegar hafa verið send Landspítala á því um hvers eðlis umrædd veikindi eru.  Fyrstu niðurstaðna er að vænta eftir miðjan dag í dag en líklegast er talið að noro veira hafi valdi veikindunum.

Rauði kross Íslands heldur utan um starfið í fjöldahjálparstöðinni ásamt heilbrigðisstarfsfólki og fylgir  eftir þeim sem geta farið og eru einkennalausir í samráði við skátahreyfinguna. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er við störf á Úlfljótsvatni en hluta húsakosts skáta þar hefur verið lokað um sinn. Vonast er til að geta útskrifað sem flesta sem eru einkennalausir, við fyrsta tækifæri.

Nýr fundur kl. 16

Samráðshópur skipaður starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi, fulltrúum sóttvarnarlæknis, umdæmislækni sóttvarna í héraði, Rauða kross Íslands, Brunavarna Árnessýslu, bæjarstjóra Hveragerðisbæjar og lögreglu kemur saman til fundar að nýju klukkan 16 til að meta stöðuna og skipuleggja starfið næstu daga.