Úthugsað meistaraverk

Bókmenntagagnrýni
 · 
Bókmenntir
 · 
Codex 1962
 · 
Sjón
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Úthugsað meistaraverk

Bókmenntagagnrýni
 · 
Bókmenntir
 · 
Codex 1962
 · 
Sjón
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
05.01.2017 - 12:52.Vefritstjórn.Víðsjá
Þríleikurinn CoDex 1962 eftir Sjón er úthugsað meistaraverk segir gagnrýnandi Víðsjár, „þar sem hann beitir ýmsum frásagnarsniðum og  raðar saman ólíkum bókmenntagreinum í fantastísku furðuverki sem getur ekki annað en hrifið lesanda með sér.“

Rithöfundinum er þungt niðri fyrir segir hún. „Hann deilir ekki einungis á hraða, og á stundum ógnvænlega, framför vísindanna. Hann deilir á stríð, misrétti kynjanna, karlrembuhátt og á aðstöðu þeirra sem minna mega sín og verða undir í samfélaginu.“


Sigríður Albertsdóttir skrifar:

Árið 1994 kom út bókin Augu þín sáu mig eftir Sjón. Ég lít svo á að með þeirri bók hafi Sjón fest sig endanlega í sessi sem einn af okkar bestu og frumlegustu höfundum. Þar segir frá gyðingnum Leó Löwe sem á flótta í hrjáðri veröld seinni heimsstyrjaldar rekst inn á gistiheimili í smábænum Kukenstadt í Neðra-Saxlandi. Það er mjög af honum dregið og er unga stúlkan Marie- Sophie fengin til þess að hjúkra honum.

Leó hefur meðferðis hattöskju sem hefur að geyma leirklump en með aðstoð Marie-Sophie mótar hann barn úr leirnum. Í lok bókarinnar er Leó kominn um borð í Goðafoss en þar neyðist hann til að láta af hendi gullhring sem nauðsynlegur er til þess að blása lífsanda í leirbarnið.

Vitað var að Sjón hafði í hyggju að skrifa framhald þessarar bókar en eftir því þurftu lesendur að bíða í dagóðan tíma, eða í heil sjö ár. Í þeirri bók, sem ber heitið Með titrandi tár, tekur Sjón upp þráðinn þar sem frá var horfið; Leó velkist sjóveikur um borð í Goðafossi á sjálfan 17. Júní árið 1944 en þar kynnist hann manni sem á eftir að koma töluvert við sögu, blökkumanninum Anthony Brown.

Í stuttu máli fjallar Með titrandi tár um baráttu Leós við að komast yfir gullhringinn en í anda Sjóns gerist auðvitað ýmislegt skondið og skrítið í alls kyns hliðarsögum. Í lok bókarinnar hefur Leó loksins tekist ætlunarverk sitt; að gefa leirbarninu líf. Það hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig og það er ekki fyrr en árið 1962 sem barnið lítur dagsins ljós. Enn þurftu lesendur að biða eftir framhaldi en nú varð biðin enn lengri því 15 ár liðu á milli bóka. En nú er lokabindið, Ég er sofandi hurð loksins komið út í þríleik sem heitir Codex 1962.

Í Ég er sofandi hurð er leirdrengurinn, Jósef Löve, sem öðlaðist líf í Með titrandi tár, orðinn miðaldra maður sem áfram segir sögu sína. Í fyrri bókunum hljómar rödd hans ávallt undir textanum, hann grípur inn í atburðarásina með reglulegu millibili og segir stúlku nokkurri sögu sína. Hún er spennt fyrir frásögninni en stundum svolítið pirruð því oft fer Jósef að segja frá einhverju sem stúlkunni finnst ekkert koma málinu við. En hver þessi stúlka, eða kona er, kemur ekki í ljós fyrr en í síðustu bókinni. 

Í fyrstu bókinni fær lesandi sterklega á tilfinninguna að þetta sé ástmey Jósefs en svo er aldeilis ekki. Þetta er kona sem fengin er til þess af erfðafræðingnum Hrólfi Zópaníusi Magnússyni að taka viðtöl við fólk sem þjáist af sjaldgæfum sjúkdómum en Jósef glímir einmitt við einn slíkan. Fyrirmynd Hrólfs getur ekki verið neinn annar en Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar en í bókinnni segir svo: „Um langt árabil hafði hann verið fastagestur í fréttum og spjallþáttum í útvarpi og sjónvarpi, sitt á hvað vegna forstjórastarfs síns hjá erfðalíftæknifélaginu CoDex – en frá fyrsta degi bárust þaðan tíðindi um stórkostleg vísindaafrek.“ (424)

Umsvif Hrólfs eru rakin og greina má sterkan írónískan undirtón í þeirri frásögn. Hann svífst einskis í rannsóknum sínum, er með afbrigðum fjöllyndur, marggiftur og margskilinn, og hittir einmitt verðandi samstarfsmann sinn á nektarbúllu. Þessi kona, sem Hrólfur ræður til sín, fer samviskusamlega eftir þeim fyrirmælum sem fyrir hana eru lögð en rík áhersla er meðal annars lögð á að hún stofni ekki til kunnningsskapar við viðmælendur sína. En þá reglu brýtur hún þegar hún hittir Jósef Löve. Hún lætur heillast af frásögn hans og á milli þeirra myndast náin tengsl.

Súrrealísk frásögn á köflum

Saman mynda bækurnar þrjár sterka heild. Hér er sögð saga sem hefst undir lok seinni heimsstyrjaldar og lýkur árið 2015. Í Augu þín sáu mig eru goðsögulegar víddir spenntar til hins ítrasta; í Með titrandi tár er þjóðernishyggja í brennidepli og í Ég er sofandi hurð eru vísindin og hvers þau eru megnug allsráðandi. Rauði þráðurinn er saga Jósefs, hins dularfulla leirdrengs, sem þegar upp er staðið er kannski bara venjulegur drengur af holdi og blóði. En inn í frásögnina fléttast ýmsar sögulegar staðreyndir, birt eru viðtöl við persónur sem lesandi kannast við og með reglulegu millibili brýtur höfundur frásögnina upp með vísun í ævintýri og goðsögur.

Frásögnin er æði súrrealísk á köflum og stundum veit lesandi ekki hvaðan á sig stendur veðrið, verður óþolinmóður og þolir lítt alla útúrdúrana rétt eins og stúlkan sem hlustar. En til þess er leikurinn gerður. Það er líkt og höfundur hægi viljandi á frásögninni til þess að auka spennuna því öll viljum við jú vita hver örlög drengsins verða. En útúrdúrarnir skipta máli því þeir tengja frásögnina við sögu mannskyns og menningu, og þar með sögu Jósefs, sögu okkar og sögu Sjóns sjálfs en Jósef er einmitt fæddur á sama augnabliki og höfundurinn. Og nærvera höfundar verður æði áleitin í síðustu bókinni. Hann rennur sem persónan Sjón inn í eigin sagnaheim og sameinast öllum þeim einstaklingum af árgangi 1962 sem hafa yfirgefið jarðvistina. Þessir kaflar eru settir upp eins og leikrit og eru ótrúlega flottir, átakanlegir en að sama skapi fagrir en í þeim er sagt frá fæðingar- og dánarári árgangs 62. En þeir þjóna vissulega sínu hlutverki, rétt eins og allt annað í verki Sjóns.

Furðuverk sem hrífur lesendur með sér

Sjón lokar þríleik sínum á hátt sem hlýtur að hugnast lesanda. Í lokabindinu er undirtónninn dekkri en í fyrri bókunum en þar er hulunni svipt af ægivaldi vísindanna með menn í fararbroddi sem einskis svífast. Framtíðarsýnin er ekki björt en það er ekki líkt Sjón að loka á vonina. Það gerir hann heldur ekki. En honum er vissulega þungt niðri fyrir. Hann deilir ekki einungis á hraða, og á stundum ógnvænlega, framför vísindanna. Hann deilir á stríð, misrétti kynjanna, karlrembuhátt og á aðstöðu þeirra sem minna mega sín og verða undir í samfélaginu. En hann gerir þetta á sinn eigin sérstæða hátt. Hann beitir ýmsum frásagnarsniðum og  raðar saman ólíkum bókmenntagreinum í fantastísku furðuverki sem getur ekki annað en hrifið lesanda með sér. Sjón er lærður rithöfundur sem í gegnum tíðina hefur sankað að sér alls kyns fróðleik og þá gildir einu hvort það er á sviði bókmennta, heimspeki, tónlistar eða trúarbragða. Margt af þeirri vitneskju laumar sér inn í þríleikinn og styrkir undirstöður hans.

CoDex 1962 er að mínu mati meistaraverk, úthugsað frá fyrstu síðu til þeirrar síðustu. Ég fór hvað eftir annað á flug og gleymdi mér gjörsamlega ýmist í goðsögum og ævintýrum eða í hinni rammgerðu sköpunarsögu Leós Löve. Geri aðrir höfundar betur.