Útblástur heldur áfram að aukast á Íslandi

01.05.2017 - 20:41
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Útblástur gróðurhúsalofttegunda eykst áfram á Íslandi, þvert á markmið, samkvæmt nýrri losunarskýrslu. Sérfræðingur segir breyttar samgöngur helstu von landsmanna til að draga hratt úr losun.

Samkvæmt Parísarsamningnum eiga Ísland, Noregur og Evrópusambandið í sameiningu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% frá 1990 til 2030. Ríki heims halda sérstakt losunarbókhald sem skilað er til Sameinuðu þjóðanna árlega. Samkvæmt nýjustu skýrslunni fyrir Ísland, sem var skilað nú í apríl og nær til ársloka 2015, heldur losunin áfram að aukast, þvert á markmið. Fjallað er um þetta í Kjarnanum í dag.

En hvað er hægt að gera? Vanda Úlfrún Liv Hellsing, verkefnisstjóri loftslagsbókhaldsins hjá Umhverfisstofnun, segir að sumar aðgerðir til að draga úr losun beri ekki árangur fyrr en eftir mörg ár. „En eins og að draga úr og breyta samgönguvenjum, það er eitthvað sem við ættum að geta náð árangri í nokkuð skjótt.“

Í kringum aðgerðir gegn loftslagsbreytingum er heill frumskógur af regluverki, ýmis markmið og undirmarkmið. Vanda segir að þetta skipti allt gríðarlegu máli fyrir stjórnvöld, en markmiðin samkvæmt reglunum séu ekki höfuðatriði fyrir almenning. „Aðalatriðið er að við þurfum öll að draga úr. Við þurfum bæði að endurskoða neyslu, neyta minna, en líka skoða hvernig við ferðumst og hvaða vöru, kaupum við ávexti í plastumbúðum, eða hvað við gerum.“

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV