Utanríkisþjónustan löguð að nýrri heimsmynd

04.04.2017 - 13:42
Framundan er endurskoðun og hagsmunamat út frá sjónarhóli utanríkisþjónustunnar. Skoða á tækifæri í nýrri heimsmynd og áskoranir framtíðarinnar. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir að liðin séu 18 ár frá því það var síðast gert. Hann minnir á að utanríkisþjónustan geri ekkert ein, hún þurfi að vinna með fyrirtækjum, hjálparsamtökum og fleirum. Ráðherra fór yfir þessi mál á Morgunvaktinni á Rás 1.

Tilefnið var fundur sem utanríkisráðuneytið hélt í samvinnu við Alþjóðastofnun Háskóla Íslands, þar sem fjallað var um framtíð utanríkisþjónustunnar. Ísland starfrækir 21 sendiskrifstofu í 17 löndum og þrjár umdæmisskrifstofur sem sinna þróunarhjálp og gegna um leið hlutverki sendiráðs. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar eru um 240, þar af starfa um 115 hér heima en um 125 starfa erlendis. Tæpur helmingur er frá Íslandi, aðrir eru staðarráðnir. Utanríkisráðherra segir að ráðuneytið vilji heyra sjónarmið hagsmunaaðila og almennings. Þeir sem vilji koma með ábendingar geti gert það með því senda þær á netfangið framtid@mfa.is.

„Heimurinn er að breytast mikið,“

segir Guðlaugur Þór. Hann bendir t.d. á að fleiri tilheyri millistéttinni í Kína en sem nemi íbúafjölda Bandaríkjanna. Þá sé stutt þangað til millistéttin á Indlandi verði fjölmennari en í Kína. Hann segist með þessu ekki vera að gera lítið úr mikilvægi Evrópu. „Fyrir hundrað árum var 25 prósent jarðarbúa í Evrópu. Þar var allur auðurinn og völdin. En árið 2030 verður hlutfall Evrópubúa 4 prósent. Evrópa er þegar orðin elsta álfan, þó í löndum eins og Japan og Suður-Kóreu sé líka hár meðalaldur.“ Auk þessarar breytingar nefnir ráðherra norðurslóðamálin. „Þar erum við Íslendingar komnir í strategískt mikilvæga stöðu og tökum við forystu í norðurslóðamálunum árið 2019. Það skiptir miklu máli hvort við séum tilbúin í þessar breytingar. Er utanríkisþjónustan okkar, sem skipulögð var fyrir löngu síðan, tilbúin að takast á við þessar áskoranir og tækifærin sem sannarlega eru þarna.“ 

Verulegur hluti útgjalda utanríkisþjónustunnar fer í að reka sendiráð á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu. Ekki var að heyra á ráðherra á Morgunvaktinni að miklar breytingar verði á því. „Norðurlandasamstarfið er að verða mikilvægara vegna þessarar stækkunar á heiminum, ef svo má segja. Norrænir kollegar eru sammála um að það sé skynsamlegt fyrir norrænu þjóðirnar að vinna saman á fjarlægum mörkuðum. Ef við seljum ekki þessum stækkandi millistéttum vörur og þjónustu, þá gera einhverjir aðrir það. Og lífskjör hér munu skerðast."

„Ég vil skilgreina þetta út frá verkefnum. Hvaða árangri viljum við ná? Ekki út frá einstaka stofnunum eða sendiráðum.“

 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi