Út í hött að kosningarnar hafi áhrif á Brexit

22.04.2017 - 15:05
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Úrslitin í bresku þingkosningunum í sumar munu ekki hafa nein áhrif á Brexit-viðræðurnar um úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta segir Guy Verhofstadt, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, sem mun stýra viðræðunum fyrir hönd Evrópusambandsins. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að hvert atkvæði greitt Íhaldsflokknum í kosningunum tryggi henni betri samningsstöðu í Brexit-viðræðunum, en Verhofstadt segir að allt slíkt tal sé „út í hött“.

Þetta kemur fram í grein sem Verhofstadt skrifar í The Observer, sunnudagsútgáfu breska blaðsins The Guardian, undir yfirskriftinni „Ekki trúa Theresu May“. Þar er Verhofstadt harðorður í garð May, sem tilkynnti í vikunni um snemmbúnar þingkosningar sem fram fara 8. júní, og kallar hana tækifærissinna.

Verhofstadt mun gegna lykilhlutverki í Brexit-viðræðunum næstu tvö ár þar sem Bretar munu freista þess að semja um viðskilnaðinn við Evrópusambandið án þess að hann bitni um of á þeim.

„Súrrealísk“ atburðarás í breskum stjórnmálum

Hann segir í grein sinni að atburðarásin í breskum stjórnmálum að undanförnu hafi verið súrrealísk og að ákvörðun May um kosningarnar virðist ekki vera annað en tilraun til að nýta sér bágt ástand Verkamannaflokksins og tryggja Íhaldsflokknum völd í fimm ár til viðbótar áður en afleiðingarnar af Brexit skelli á þjóðinni. Svo virðist sem ákvörðunin sé tækifærismennska í þágu ríkjandi valdaflokks, frekar en að hún sé tekin með hagsmuni bresku þjóðarinnar í huga.

Hann segir að allar kenningar um að stórsigur Íhaldsflokksins í kosningunum mundi styrkja samningsstöðu Breta gagnvart Evrópusambandinu séu „út í hött“. Staðan á breska þinginu muni ekki breyta neinu um viðræðurnar.

„Í Brussel hafa margir áhyggjur af því að lítill sveigjanleiki forsætisráðherrans í mörgum málum og þröng pólitísk staða hennar heima fyrir dragi úr möguleikum á því að samningar geti náðst, en hins vegar er engan veginn tryggt að sú staða mundi breytast þótt nokkrum íhaldsmönnum til viðbótar yrði stráð á aftasta bekk í breska þinginu,“ skrifar Vershofstadt.