Uppsveiflan þröngvar fólki í óviðunandi híbýli

25.04.2017 - 13:46
Sól fellur í gegnum gluggatjöld og lendir á auðu rúmi. Táknrænt fyrir einmanaleika.
 Mynd: rúv
Færst hefur í aukana að fólk búi í ósamþykktu og vafasömu húsnæði. Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis (VSFK), hefur kallað eftir samstilltu átaki til að kanna hver staðan sé í raun og veru, en fengið takmörkuð viðbrögð. Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir áhyggjuefni að vinnuveitendur sjái um að útvega starfsfólki húsnæði.

„Þetta hefur tvímælalaust verið að aukast sem vandamál. Við höfum af þessu verulegar áhyggjur," segir Kristján sem þekkir stöðuna á Reykjanesinu. Honum finnst trúlegt að ástandið sé svipað hjá öðrum sveitarfélögum. 

Innrétta gamla bragga og iðnaðarhúsnæði
„Við finnum að þetta er tilhneigingin þegar svona mikill húsnæðisskortur er. Hingað kemur ótrúlegt magn af fólki sem er að leita sér að herbergjum eða húsnæði til leigu. En hér er ekkert húsnæði að hafa, allt á Airbnb eða farið í leigufélög sem eru að keyra upp leiguna. Og við þennan mikla húsnæðisskort bætist svo þessi stóri hópur af erlendum verkamönnum sem eru fluttir hingað til vinnu," segir hann og bætir við að því sé öllu tjaldað til til þess að koma fólki í húsnæði.

Kristján segir að mörg fyrirtæki hafi brugðist við af veikum mætti til að útvega starfsfólki húsnæði. „Það er verið að innrétta gamla bragga og gamalt iðnaðarhúsnæði. Þetta húsnæði er oft verra en gæsluvarðhaldsfangelsi."

Hann segir að það sé erfitt að átta sig á umfangi vandans og stjórnvöld verði að bregðist við með því að gera könnun á því hver staðan sé.

„Við verðum að fá vitneskju um hver raunverulega staðan sé. Býr fólk almennt í gámum eða verkstæðum? Núna er málaflokkurinn bara í einhverju tómarúmi. Það gera allir það sem þeim sýnist," segir Kristján.

Banaslys fyllti mælinn
Það sem fyllti mælinn hjá Kristjáni var uppákoma sem varð á Reykjanesi í febrúar þegar maður lést er eiturgufur úr borholu HS orku bárust með vatnslögnum inn í svefnskála. Húsnæðið var samþykkt af byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar árið 2010 til eins árs en leyfið var aldrei endurnýjað og því útrunnið.

„Það var gikkurinn sem setti mig af stað í því að hrópa og kalla, til að komast að því hver staðan sé. Það er ekkert einfalt að finna út úr því. Það þarf samstillt átak um það. Ég vil ekki að félagsmenn mínir séu í einhverri hættu, ef það er til dæmis bílaverkstæði á neðri hæðinni og svo búið að klastra upp íbúðarhúsnæði á þeirri efri," segir Kristján.

Kristján segist hafa reynt að fá bæjarfulltrúa í lið með sér til að leggja fram erindi á fundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um að gera samstillta könnun. „Svo þetta yrði ekki bara 'hver að skoða í sinn kopp'. En ég hef ekki haft spurnir af því að nokkuð hafi gerst," segir hann.

„Nýta allt mögulegt og ómögulegt húsnæði"
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, tekur undir að ástandið sé bagalegt. „Það hafa komið mál inn á borð til okkar þar sem fólk er í alls konar húsnæði. Og það í rauninni segir sig sjálft að þetta er að gerast af því við erum að fá inn miklu fleiri manneskjur á íslenskan vinnumarkað heldur en við höfum húsnæði fyrir. Þær hljóta að vera einhvers staðar. Þá hlýtur freistingin að vera að nýta allt mögulegt og ómögulegt húsnæði," segir Drífa og bætir við að Starfsgreinasambandið telji að margir búi við óviðunandi aðstæður.

Drífa segir brýnt að bæta við húsnæði á Íslandi „fyrir allt það fólk sem býr hérna og allt það fólk sem við þurfum að fá til landsins til að standa undir okkar atvinnulífi."

Eykur þrælsótta hjá launafólki
Drífa segir töluvert áhyggjuefni að vinnuveitendur sjái um að útvega starfsfólki sínu húsnæði. „Við erum ekki hrifin af þeirri þróun. Við viljum ekki að þú sért háð atvinnurekanda með húsnæði. Þá getur þrælsóttinn orðið meiri hjá launafólki gagnvart atvinnurekanda. Þó að oft gangi þetta mjög vel þá getur maður spurt sig: Hvað gerist ef þú vilt skipta um vinnu? Hvað gerist ef þú verður veikur og dettur út af vinnumarkaði, missirðu þá húsnæðið líka? Hefur þetta áhrif á það þegar þú ert að greiða atkvæði um kjarasamninga eða jafnvel verkfallsátök? Þetta vekur ýmsar spurningar," segir Drífa.

Hún telur öruggt að það færist í auka að vinnuveitendur útvegi starfsfólki húsnæði. „Aðstæður á Íslandi eru þannig að þetta hlýtur að vera að aukast."

Fjölmenna í íbúðir
Kristján segir að það hafi færst mjög í auka að erlendir verkamenn fjölmenni í litlar íbúðir til þess að hafa einhvern samastað. „Þeir vilja vera í ódýru húsnæði, leigja íbúð á uppsprengdu verði og hrúgast svo inn í hana. Ég hef séð dæmi um að þeir sofi upp undir fjórir í herbergi. Þetta eru bara einhver bæli."

„Þeir gera þetta í neyð sinni og svo eru þeir mjög tregir til að ræða þetta. Þeir eru í heraga og ef þeir kvarta eiga þeir á hættu að vera reknir. Svo þeir reyna bara að sigla lygnan sjó," segir Kristján.

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV