Ungum konum á örorku fjölgar

18.03.2017 - 19:19
1800 manns voru í fyrra úrskurðaðir öryrkjar í fyrsta sinn. Þetta eru rúmlega fimmtungi fleiri en árið á undan. Hlutfallsleg aukning nýgengis er langmest hjá ungum konum eða 60 af hundraði. 

Nýgengi örorku jókst um 22 prósent bæði hjá konum og körlum. Ein skýring er sú að Tryggingastofnun stytti afgreiðslutíma umsókna í fyrra en ástæðurnar eru fleiri. Tryggingastofnun og Virk starfsendurhæfingarsjóður eru að undirbúa rannsókn til að reyna að varpa ljósi á hugsanlegar ástæður. 

„Það er stór hópur ungar konur sérstaklega á ákveðnu aldursbili sem er að sækja um örorkulífeyri og það er líka mikið áhyggjuefni“, segir Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri Virk.

Langmest hlufallsleg aukning í fyrra varð hjá 20 til 39 ára konum. Í fyrra fengu 348 konur á þessu aldri úrskurð í fyrsta sinn en 218 árið 2015. Nýgengi örorku jókst þess vegna um 60%. Hjá körlum í aldurshópnum voru 155 nýskráðir 2015 en 185 í fyrra. Það er 20% aukning. Fólk sem hefur fengið stuðning hjá starfsendurhæfingarsjóðnum Virk hefur náð ágætis árangri: 

„Það gerist síðan eitthvað þegar fólk er að fara út í vinnuna og það vantar stuðning bæði fjárhagslega og félagslega, sérstaklega fyrir ungt fólk til að fara á vinnumarkaðinn aftur.“

Dæmi um þetta er að þeir sem fara á örorkulífeyri eða fá metna 75 prósenta örorku eða meira geta fengið skattfrjálsan og ótekjutengdan barnalífeyri sem er tæpar 30 þúsund krónur á mánuði með hverju barni. 

„En ég spyr ungir einstaklingar á vinnumarkaði, sem eru með lágar ráðstöfunartekjur, af hverju styðjum við þá ekki líka með skattfrjálsum barnalífeyri? Og hjálpum fólki frekar að taka þátt á vinnumarkaði heldur en að fara inn í örorkuna.“

Vigdís segir að þeir mörgu aðilar sem sinni þessu verði að koma saman og finna leiðir og lausnir fyrir fólk sem er í þessari stöðu. 

„Við verðum að setjast saman yfir þetta og við verðum að breyta kerfinu.“

Til dæmis þegar börnin eldast og þeir sem fá örorkulífeyri hætta að fá barnalífeyri þá geta þeir átt afar erfitt með að fara út á vinnumarkaðinn aftur: 

„Þannig að við erum svolítið inn í kerfinu að leiða fólk inn í gildru. Þetta er kannski gott til skemmri tíma en þetta er ekki gott fyrir fólk til lengri tíma. Ég geri ekki lítið úr vanda þeirra einstaklinga sem um ræðir, þeir eru að glíma við veikindi, þeir eru að glíma við vandamál. En það er oft þannig að vinna getur verið partur af endurhæfingunni og partur af batanum. Það getur bara hreinlega verið mjög svona heilsueflandi og það hafa allar rannsóknir sýnt það.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Virk
Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri Virk starfsendurhæfingarsjóðs
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV