Umdeild ráðning óperustjóra

19.04.2015 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ráðning nýs óperustjóra við Íslensku óperuna er afar umdeild á meðal íslenskra óperusöngvara. Margir þeirra telja hann skorta bakgrunn í heimi óperunnar. Nýi óperustjórinn vísar þessari gagnrýni á bug.

 

Ráðning Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur í starf óperustjóra Íslensku óperunnar hefur fallið í misgóðan jarðveg meðal íslenskra óperusöngvara. Fréttastofa hefur rætt við marga þeirra í dag, þeir benda á að á meðal 15 umsækjenda hafi verið fólk með áralanga reynslu í heimi óperunnar. Þar má nefna Gunnar Guðbjörnsson, Kristján Jóhannsson og Davíð Ólafsson.

Viðmælendur fréttastofu segja að eigi vegur óperunnar að vaxa þá hefði þurft að ráða óperustjóra sem hefði nægt vit og þekkingu á því sviði og að það hafi Steinunn Birna ekki. Hún segir að þessi gagnrýni komi sér á óvart og vísar henni á bug. „Ég hefði nú ekki gefið kost á mér ef að ég teldi svo. Ég held að það sé nú aukaatriði hvaða hljóðfæri maður hefur, hvort sem það er útvortis eða innvortis og tónlistarmaður er tónlistarmaður og sá sem hefur reynslu af því að vera tónlistarstjóri í tónlistarhúsi í fimm ár getur ekki veigrað sér við slíkri áskorun, þó það sé ekki akkúrat hennar eigið fag.“

Júlíus Vífill Ingvarsson, stjórnarformaður Óperunnar segir að ráðningarferlið hafi verið faglegt í alla staði og verið unnið af Capacent. Hann vill ekki tjá sig um gagnrýni á ráðningu Steinunnar.

Steinunn segir að það hafi verið orðið tímabært fyrir sig að huga að nýjum verkefnum eftir fimm ár í starfi tónlistarstjóra Hörpu. Hún segir of snemmt að gefa yfirlýsingar um hvort einhver stefnubreyting verði á starfsemi óperunnar með tilkomu sinni. „Nei, þetta var nú bara að bresta á í gær, en ég tek við mjög góðu búi af Stefáni Baldurssyni sem hefur stýrt Íslensku óperunni af mikilli snilld og kostgæfni í átta ár, og ég kem til með að byggja bara á þeim góða grunni sem hann hefur lagt.“

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir