Tvöfaldri áhöfn sagt upp hjá HB Granda

10.08.2017 - 16:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
HB Grandi er búinn að selja frystitogarann Þerney úr landi og verður tveimur áhöfnum skipsins sagt upp á næstu dögum. Þetta kom fram fundi áhafnanna og HB Granda í dag. Sjómennirnir ganga fyrir í önnur störf sem losna hjá útgerðarfélaginu og ætlar bæði fyrirtækið og stéttarfélagið að aðstoða þá við að fá pláss sem kunna að losna.

„Svona er aldrei skemmtilegt en lög um hópuppsagnir gilda ekki um sjómenn,“ segir Bergur Þorkelsson, féhirðir Sjómannafélags Íslands. „Þeir hefðu ekki einu sinni þurft að bjóða okkur á fundinn.“

Bergur var viðstaddur fundinn ásamt fulltrúum frá VM og Félagi skipstjórnarmanna og  svo áhöfnunum sjálfum. „Það var þungt yfir mönnum þegar þetta barst, þeir náttúrulega verða atvinnulausir.“

Vongóður um að sjómennirnir fái pláss

Þerney er frystitogari og voru tuttugu og sjö i hvorri áhöfn skipsins. Fram kom á fundinum að Þerney hafði ekki verið sett á sölu en áhugasamur kaupandi frá Suður-Afríku hafi gefið sig fram og keypt skipið. HB Grandi er búið að panta annað og stærra skip, segir Bergur.

„Ef við fréttum af lausum plássum látum við þá vita,“ segir Bergur. „Útgerðir hafa hringt í okkur ef menn vantar. Við munum auðvitað láta þessa sjómenn vita af því ef það gerist. Mikið fleira getum við ekki gert.“

Hann kveðst vongóður um að þeir fái aftur pláss innan tíðar. „Það er auðveldara að komast á sjó nú þegar krónan er svona sterk. Þá eru margir sem kjósa frekar að vinna í landi þannig að það er talsverð hreyfing á sjómönnum.“

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV