Tvíhöfði snýr aftur á Rás 2 í sumar

Afþreying
 · 
Síðdegisútvarpið
 · 
Menningarefni

Tvíhöfði snýr aftur á Rás 2 í sumar

Afþreying
 · 
Síðdegisútvarpið
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
17.05.2017 - 17:25.Davíð Kjartan Gestsson.Síðdegisútvarpið
Útvarpsþátturinn Tvíhöfði, undir stjórn þeirra Jóns Gnarrs og Sigurjóns Kjartanssonar mun snúa aftur eftir hlé á Rás 2 í sumar.

Þátturinn verður í beinni útsendingu. „Við hugsum þetta sem frétta- og magazínþátt þar sem við ræðum um málefni líðandi stundar,“ segir Jón Gnarr. „Við þorum þegar aðrir hörfa,“ bætir hann við og lofar því að stungið verði á samfélagskýlum. „Við getum lofað alveg fimm skúbbum í hverjum þætti, að minnsta kosti,“ segir Sigurjón.

Endurfundir á Rás 2

Síðast var Tvíhöfði á dagskrá Rásar 2 árið 2013 en þátturinn rekur sögu sína allt aftur til ársins 1994. Hann var um langt árabil einn vinsælasti útvarpsþáttur landsins og lengst af á dagskrá útvarpsstöðvarinnar X-ins.

Það verða endurfundir á Rás 2 í sumar. „Doddi litli verður með okkur, hann var okkar fyrsti tæknimaður. Það var annar tæknimaður sem við vorum líka með, sem endaði uppi sem íþróttafréttamaður, sem er ótrúlegt. Ég hélt að það yrði ekkert úr þessum dreng. Þetta var Hans Steinar Bjarnason og hann mun líka taka eitthvað í takkana í sumar,“ segir Sigurjón.

Úr útvarpsþáttunum voru á sínum tíma unnar feykivinsælar plötur með gamanefni og sketsum úr þættinum eins og Kondí fíling, Sleikir hamstur og safnplatan Gubbað af gleði.

Þátturinn verður á dagskrá Rásar 2 alla laugardaga í sumar milli 12.40 og 16 og verður með svipuðu sniði og á árum áður. Sketsar, spjall og klassískir dagskrárliðir eins og smásálin sem eru flestum hlustendum að góðu kunnir.