Tveir vildu ómerkja sýknudóm Annþórs og Barkar

Börkur Birgisson kemur úr héraðsdómi Suðurlands, jan. 2016
 Mynd: RÚV
Tveir af fimm dómurum Hæstaréttar sem dæmdu í máli Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar vildu ómerkja dóm Héraðsdóms Suðurlands og endurtaka munnlega sönnunarfærslu fyrir héraðsdómi. Þeir segja að myndbandsupptaka bregði upp allt annarri mynd af samskiptum Annþórs og Barkar við Sigurð Hólm Sigurðssonar en ákærðu lýstu fyrir dómi. Þeir sögðu fyrir dómi að þeim hefðu viljað Sigurði vel en dómararnir segja myndina sýna að þeir teldu sig eiga eitthvað sökótt við hann.

Annþór og Börkur voru í dag sýknaðir af ákæru um manndráp, með dómi Hæstaréttar sem staðfesti dóm Héraðsdóms Suðurlands. Þrír af fimm dómurum sýknuðu mennina en tveir dómarar skiluðu sératkvæði.

Annþór og Börkur sögðu fyrir dómi að þeir hefðu haft áhyggjur af Sigurði og heilsu hans, þeir hefðu hvatt hann til að hætta neyslu fíkniefna. Hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason draga þetta í efa og átelja að ekkert sé vikið að því í dómi Héraðsdóms Suðurlands hvernig þetta samræmist upptöku úr myndavélum fangelsisins. Þeir segja að þar sjáist að Sigurður taki ekki í útrétta hönd Annþórs þegar þeir hittast og að Börkur taki mjólkurglas sem Sigurður var að drekka úr og helli úr því. Greinilegt sé að Börkur sé ekki að ganga frá glasinu eftir Sigurð. Þetta séu því ögrandi viðbrögð og gangi þvert á orð þeirra um að engin óvild hafi búið að baki. Hæstaréttardómararnir tveir telja að í þessu ljósi hefði dómendum við Héraðsdóm Suðurlands borið að leggja mat á trúverðugleika framburðar þeirra Annþórs og Barkar. „Er þess þá að gæta að ekkert styður að þeir hafi borið hag A fyrir brjósti heldur þvert á móti að þeir ættu eitthvað sökótt við hann sem skýri af hverju þeir fóru rakleitt á eftir honum inn í fangaklefa þar sem hann andaðist skömmu síðar vegna innvortis blæðingar frá milta og aðliggjandi æð.“

Ólíkt mat á atburðum í fangaklefanum

Dómararnir tveir fjalla um álit réttarmeinafræðinga. Þeir segja líka með öllu óútskýrt hvernig Héraðsdómur Suðurlands hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri útilokað að fall í klefanum hefði orsakað þá áverka sem drógu Sigurð Hólm til dauða.

Meirihluti Hæstaréttar, þrír dómarar af fimm, vísuðu hins vegar til þeirrar ályktunar Héraðsdóms Suðurlands að ekki væri útilokað að Sigurður hefði látist vegna falls í fangaklefa sínum. Hæstiréttur sýknaði Annþór og Börk með hliðsjón af því.