Tvær milljónir barna á flótta eða hrakhólum

09.05.2017 - 03:58
In this photo taken Saturday, Feb. 25, 2017 and released by the World Food Programme (WFP), a family waits for food assistance to be distributed in Thonyor, Leer County, one of the areas in which famine has been declared, in South Sudan. The United
Fólk sem bíður eftir matargjöfum á einu þeirra svæða í Suður-Súdan þar sem hungursneyð hefur verið lýst yfir.  Mynd: AP
Ríflega milljón börn hafa flúið harðnandi stríðsátökin í Suður-Súdan, samkvæmt upplýsingum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. Svipaður fjöldi er á hrakningi innan landamæra Suður-Súdans. Leila Pakkala, svæðisstjóri UNICEF segir þá staðreynd, að fimmtungur suður-súdanskra barna hafi neyðst til að flýja land og annar eins fjöldi sé á hrakhólum innanlands stefna framtíð hellar kynslóðar í bráðan voða.

Valentin Tapsoba, sem stýrir skrifstofu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Afríku, segir þrengingar flóttafólks í og frá Suður-Súdan vekja honum þyngri áhyggjur en vandi nokkurs annars flóttafólks. Þetta stafar ekki síst af því að um 62 prósent þeirra 1.800 þúsunda flóttamanna sem hrakist hafa frá Suður-Súdan til Úganda, Kenía, Eþíópíu og Súdan, eru á barnsaldri.

„Það, að flóttabörn skuli vera andlit þessarar miklu neyðar er sérlega mikið áhyggjuefni. Við öll sem störfum að mannúðarmálum þurfum að grípa til skjótra, ábyrgra og sjálfbærra aðgerða til að bjarga lífi þeirra,“ segir Tapsoba. Á annað þúsund barna hafa verið drepin eða særð síðan borgarastríð braust út í Suður-Súdan 2013, tveimur árum eftir að það öðlaðist sjálfstæði frá Súdan.

Nær þriðjungur allra barna í landinu hefur engan aðgang að skólastofnunum eins og ástandið er núna. Samkvæmt upplýsingum UNICEF er þetta hlutfall hvergi hærra.