Tvær bílveltur í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Tvær bílveltur urðu í nótt. Stundarfjórðungi fyrir þrjú fór pallbíll út af Snæfellsnesvegi um fimm kílómetra vestur af Borgarnesi og valt. Einn maður var í bílnum og slasaðist nokkuð. Var hann fluttur á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Ekki er vitað um líðan hans að svo stöddu. Lögreglan í Borgarnesi vildi ekki tjá sig frekar um slysið eða möguleg tildrög þess þegar fréttastofa náði sambandi við hana nú laust fyrir sex, en segir málið í rannsókn.

Þá fór bifreið út af Biskupstungnabraut um fimmleytið í morgun og fór eina eða tvær veltur. Bíllinn endaði á hjólunum í mjúkum kanti, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Selfossi. Fernt var í bílnum en enginn slasaðist alvarlega. Tveir voru þó fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til skoðunar og aðhlynningar. Að sögn lögreglu brast á með skyndilegri flughálku á þessum slóðum í nótt. Enginn grunur leikur á um ölvun ökumanns. 

Í höfuðborginni var nokkuð erilsamt vegna skemmtanahalds borgarbúa og gesta þeirra, sem margir hverjir virðast hafa kvatt veturinn og fagnað sumrinu heldur hraustlega. Nóttin gekk þó stórslysalaust fyrir sig. Á Akureyri var einn fluttur á slysadeild eftir ryskingar á skemmtistað, annar gistir fangageymslu vegna ölvunar og sá þriðji gripinn með sautján grömm af ætluðu amfetamíni. Sá var yfirheyrður og sleppt að því loknu. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV